Verkalýðsfélag Akraness hefur stefnt Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir félagsdóm vegna brota á kjarasamningi sem félagið gerði við sambandið þann 5. febrúar 2016. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.
Málið lýtur að öllum starfsmönnum sem starfa hjá sveitafélögum sem eru svokallað tímakaupsfólk en í samningum frá árinu 2016 var samið um eingreiðslu að fjárhæð 42.000 kr. sem átti að koma til útborgunar 1. febrúar 2019.
Þessi eingreiðsla kom til vegna þess að ákveðið var að lengja gildistíma kjarasamningsins um 3 mánuði og átti þessi eingreiðsla að dekka það tekjutap sem hlaust að því að lengja í samningum.
Orðrétt segir um þessa eingreiðslu í samningum frá 2016:
„Um er að ræða kjarasamningsbundna eingreiðslu sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018.“
Í febrúar á þessu ári túlkaði Samband íslenskra sveitafélaga þessa eingreiðslu með þeim hætti að allir sem taka laun eftir tímakaupi en ekki föstum mánaðarlaunum eigi ekki rétt á þessari eingreiðslu.
Nokkrir félagsmenn sem starfa sem tímakaupsfólk hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit höfðu samband við Verkalýðsfélag Akraness og óskuðu skýringa hví þessi eingreiðsla hefði ekki skilað sér til þeirra:
„Í framhaldi af þessum athugsemdum okkar félagsmanna sem starfa hjá umræddum sveitafélögum var haft samband bæði við Akraneskaupstað sem og Hvalfjarðarsveit og svör þeirra voru á þá leið að þetta væri túlkun Sambands íslenskra sveitafélaga að tímakaupsfólk ætti ekki rétt á þessari eingreiðslu.
Formaður félagsins fundaði með Samráðsnefnd Sambands íslenskra sveitafélaga og krafðist skýringa hví tímakaupsfólk hefði ekki fengið umrædda 42.000 króna eingreiðslu eins og aðrir starfsmenn sveitafélaganna. Enda kemur skýrt fram í greininni um eingreiðsluna að um kjarasamningsbundna eingreiðslu sé að ræða sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018.
Þessi túlkun hjá Sambandi íslenskra sveitafélaga um að tímakaupsfólk hafi ekki átt rétt á eingreiðslu stenst ekki nokkra skoðun, enda varð tímakaupsfólk að sjálfsögðu fyrir tekjutapi alveg eins og starfsfólk sem tekur laun föstum mánaðarlaunum,“
segir í fréttinni á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness, hvers mat er sagt hvellskýrt:
„Það er að tímakaupfólk eigi klárlega rétt á eingreiðslunni miðað við starfstíma og starfshlutfalli. Enda afar auðvelt að finna út hvert réttur tímakaupsfólks til eingreiðslunnar er hafi það verið í starfi í desember 2018 og janúar 2019. Sem dæmi þá ætti tímakaupsmaður sem uppfyllir þessi skilyrði, unnið 86 tíma í janúar 2019hann ættir rétt á að fá 50% af þessri 42.000 króna eingreiðslu.
Það er þyngra en tárum taki hvernig Samband íslenskra sveitarfélaga hagar sér gagnvart tekjulægsta fólkinu sem sinnir gríðarlega mikilvægum störfum fyrir sveitarfélögin en stór hluti þeirra sem eru tímakaupsfólk sinnir störfum í félagsþjónustu með fötluðum.
Það er líka dapurlegt hvernig fulltrúar sveitafélaganna skýla sér á bakvið Samband íslenskra sveitafélaga þegar upp koma erfið ágreiningsmál en í þessu máli liggur fyrir að umrædd eingreiðsla var til þess að bæta starfsmönnum upp tekjutap vegna þess að samningurinn var lengdur um 3 mánuði og því fráleitt að halda því fram að tímakaupsfólk eigi að fá eingreiðsluna til að brúa það tekjutap sem hlaust að því að lengja samninginn um þessa þrjá mánuði.
Rétt er geta að um umtalsvert fordæmismál er að ræða því ein af rökum Sambands íslenskra sveitafélaga fyrir því að greiða ekki tímakaupsfólki þessa eingreiðslu var að Ríkið og Reykjavíkurborg gerðu það ekki, en kjarasamningur þeirra var einnig lengdur um þrjá mánuði og því samið um samskonar eingreiðslu í samningum hjá ríkinu og Reykjavíkurborg.“