Verðskyn og verðvitund Íslendinga er stundum sögð í minni kantinum og að þeir láti bjóða sér ýmislegt sem ekki væri liðið annarsstaðar. Facebooksíðan Vertu á verði- eftirlit með verðlagi telur yfir 4000 manns og þar eru birtar færslur og myndir af vörum sem fólki þykir dýrar úr hófi fram, eða hafa hækkað snarlega á skömmum tíma.
Ein færslan er frá því um helgina þar sem vinsælt íslensk sælgæti frá Freyju er til umfjöllunar. Þar sést að 150 gramma möndlupoki kostar 429 krónur, eða 2860 krónur kílóið í verslun Iceland í Vesturbergi.
Til samanburðar má sjá að í verslun Bónus kostar pokinn 229 krónur, eða 1527 krónur kílóið, en greint er frá því í athugasemdarkerfinu að pokinn kosti 248 krónur í verslun Nettó í Hafnarfirði.
„Ég hætti snarlega við hugsunina að versla þar þegar ég sá verðið því ég vissi hvað pokinn kostaði í Bónus. Tók myndir og læt fylgja, og velti fyrir mér hvað sé í gangi í Iceland verslun“
segir í færslu viðkomandi.
Í athugasemdarkerfinu er talað um okur og að verslanir Iceland séu almennt dýrar, meðan aðrir benda á að verslanir sem opnar séu allan sólarhringinn séu með dýrari verðlagningu, en verslanir Iceland eru opnar allan sólarhringinn.
„Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
spyr annar.