Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu fyrir næsta fiskveiðiár og fylgir hún alfarið ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Ráðgjöfin er gerð á grundvelli langtímamarkmiða um sjálfbæra nýtingu og er varúðarnálgun Alþjóðahafrannsóknaráðsins höfð að leiðarljósi.
Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar kemur fram að staða þorskstofnsins er sterk og því verða aflaheimildir í þorski auknar um 3%, úr 264.437 tonnum í 272.411 tonn. Aflamark í ýsu munu hins vegar dragast saman um 28% og skýrist það annars vegar af því að spá um um vöxt 2014 árgangsins gekk ekki eftir og jafnframt af breyttri aflareglu þar sem veiðihlutfall er lækkað úr 0.40 í 0.35. Aflamark ufsa verður aukið um 2% en veiðiheimildir fyrir gullkarfa, grálúðu og síld lækka.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Það að byggja ákvörðun um leyfilegan heildarafla á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar er ein af megin stoðum íslenskrar fiskveiðistjórnunar og tryggir sjálfbærni auðlinda hafsins til framtíðar. Árangur þeirrar stefnu er ótvíræður líkt og birtist meðal annars í því að hrygningarstofn þorsks hefur stækkað á undanförnum árum og hefur ekki verið stærri í tæp 60 ár. Hins vegar blasir við okkur í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að það er nýliðunarbrestur í nokkrum tegundum en það er atriði sem þarf að bregðast við með frekari rannsóknum.“
Í meðfylgjandi töflu má sjá ákvörðun um heildaraflamark fyrir einstakar tegundir. Þess ber að geta að aflamark fyrir mikilvæga uppsjávarstofna verður ákveðið síðar á árinu.
Tegund | Tonn |
Blálanga | 483 |
Djúpkarfi | 12.492 |
Grálúða | 12.047 |
Gullkarfi | 38.896 |
Gulllax | 9.124 |
Hlýri | 375 |
Íslensk sumargotssíld | 34.572 |
Keila | 2.906 |
Langa | 5.299 |
Langlúra | 1.067 |
Litli karfi | 697 |
Sandkoli | 399 |
Skarkoli | 6.985 |
Skrápflúra | 15 |
Skötuselur | 428 |
Steinbítur | 8.344 |
Ufsi | 80.588 |
Úthafsrækja | 4.682 |
Ýsa | 40.723 |
Þorskur | 270.011 |
Þykkvalúra/Sólkoli | 1.341 |