Frá árinu 2001 hefur Reykjavíkurborg leigt útisalerni sem staðsett eru í miðborgarsvæðinu. Á tímabilinu hefur Reykjavíkurborg greitt tæpar 418 milljónir króna fyrir leiguna, sem miðað við uppreiknaða byggingarvísitölu eru rúmar 590 milljónir króna, eða um 100 milljónir á hvert klósett. Morgunblaðið greinir frá.
Nú eru útisalernin sex talsins og hefur innkauparáð Reykjavíkur óskað eftir heimild til framlengingu á samningi við EHermannsson ehf, (áður AFA JCDecaux Ísland ehf.) um leigu og rekstur þeirra, en gildandi samningur rennur út um mánaðarmótin. Er lagt til að leigan verði framlengd til 31. desember næstkomandi svo ekki verði „þjónustufall“ en að þeim tíma loknum verði búið að vinna að nýju salernisútboði, eða að fallið verði frá þjónustunni.
Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna framlengingar samningsins er 18 milljónir króna, með virðisaukaskatti.
Í frétt Morgunblaðsins eru salernin sögð afar fullkomin, börn léttari en 14 kíló geti ekki lokast þar inni og að hurðin opnist sjálfkrafa eftir 15 mínútur, sem er vonandi nægur tími fyrir flesta til að athafna sig.