Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra VG, skrifar í Morgunblaðið í dag um mikil vægi þess að draga úr sykurneyslu. Að beiðni Svandísar gerði Embætti landlæknis aðgerðaráætlun í 14 liðum sem tekur meðal annars til þess að hækka álögur á sykur og sykurríkan mat um 20 prósent, en lækka álögur á grænmeti og ávexti.
Svandís segir þetta í samræmi við lýðheilsustefnu ríkisstjórnarinnar og minnist á að staðan á Íslandi er verst þegar hin Norðurlöndin eru höfð til hliðsjónar:
„Á Íslandi, samanborið við önnur norræn lönd, er mest neysla á sykruðum gosdrykkjum og sykurríkum vörum. Sykraðir gos- og svaladrykkir vega þyngst í sykurneyslu hér á landi en rúmlega þriðjungur (34%) af viðbættum sykri í fæði landsmanna kemur úr þessum vörum. Verð á gosdrykkjum er lágt á Íslandi og lækkaði enn frekar þegar vörugjöld voru afnumin í byrjun árs 2015. Er það andstætt þeirri þróun sem á sér stað í vestrænum löndum þessi misserin,“
segir Svandís og bætir við:
„Þá hefur ítrekað komið fram að hlutfall of feitra er hátt á Íslandi og neysla á sykurríkum vörum eykur líkur á offitu og tannskemmdum og mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum getur auk þess aukið líkur á sykursýki af tegund 2.
Í nýrri skýrslu frá WHO kemur fram að það sé vaxandi vísindalegur grunnur fyrir því að vel skipulagðir skattar á matvæli, ásamt fleiri aðgerðum, geti verið áhrifarík leið til að bæta neysluvenjur. Það er mín skoðun að skattlagning ætti að vera ein af forgangsaðgerðum stjórnvalda til að fyrirbyggja langvinna sjúkdóma.“
Árið 2013 var settur á svokallaður sykurskattur. Landlæknir gagnrýndi þær aðgerðir og sagði að lýðheilsusjónarmið væru ekki höfð í fyrirrúmi, þar sem gos hefði almennt aðeins hækkað um fimm krónur á lítrann sem og að súkkulaði hefði lækkað í verði. Sykurskatturinn var afnuminn árið 2015 og var því borið við að hann hefði ekki minnkað neyslu sykurs, en hinsvegar hefði hann aukið tekjur ríkisins um milljarð.
Lagt er til að verð á gosi og sælgæti hækki um 20%. Einnig er mælt með að verslanir selji ekki sælgæti í svokölluðum „nammibörum“ og hafi sælgæti ekki í augnhæð barna við kassa. Þá eru verslanir hvattar til að hætta með tilboð á óhollustu, með veittum afslætti á sælgæti til dæmis.