fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Margir minnast Einars: „Einstakur maður sem gleymist engum sem honum kynntust. Lífið er tómlegra án hans“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 19. júní 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útför Einars Hannessonar lögfræðings og fyrrum aðstoðarmanns dómsmálaráðherra, fer fram frá Hallgrímskirkju kl. 13 í dag. Einars er minnst í fjölda minningargreina í Morgunblaðinu í dag þar sem fyrrverandi vinir, ættingjar og kollegar skrifa um kynni sín af Einari og minnast einstaks manns. Einnig hafa kveðjur verið skrifaðar á Facebook-síðu Einars.

Einar lést þann 7. júní eftir baráttu við krabbamein, hann var 48 ára gamall.

Einar greindist með krabbamein sumarið 2013, ári síðar fékk hann þá niðurstöðu að krabbameinið væri ólæknandi. Einar lét þó þær fregnir ekki stöðva sig í starfi og leik; stofnaði fyrirtæki, reisti sumarhús, starfaði við lögmennskuna áfram og var árið 2018 aðstoðarmaður Sigríðar A. Andersen, fyrrum dómsmálaráðherra. Breyting varð þó á í haust þegar meinið tók yfir og ljóst var að lokabaráttan væri framundan.

Grétar Hannesson lögmaður, bróðir Einars, greindi frá andláti Einars í einlægri færslu á Facebook. Skrifar hann að Einar hafi haldið sínu striki og sýnt af sér aðdáunarvert æðruleysi og karlmennsku í baráttunni.

„Hann var leiðtoginn í sínu lífi, skipstjórinn á sinni skútu, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.“

„Einar var skemmtilegur og varð aldrei orða vant. Var hann vinmargur og þekkti mikinn fjölda fólks. Hef ég ekki tölu á hversu oft ég hef verið kynntur með þeim orðum að ég sé bróðir Einars Hannessonar,“ skrifar Grétar Hannesson bróðir Einars. „Nú kveð ég minn kæra bróður. Ég á erfitt með að ímynda mér framtíðina án hans en minningar um þennan ótrúlega kraftmikla og hæfileikaríka mann munu lifa með mér og ylja um alla tíð.“

Víðlesinn og fróður

„Einar var einstök manneskja, hann var víðlesinn, fróður og mjög viljugur að miðla þekkingu sinni og skoðunum , oft óháð eftirspurn. Það var því oft fjörugt í kringum Einar og spunnust miklar samræður. Gaman var að ræða heimsmálin við Einar enda kom hann iðulega með annað sjónarhorn á hlutina en maður hafði séð fyrir. Skoðanir hans gátu verið ansi beinskeyttar og harðar en það var alltaf stutt í spaugilega sjónarhornið,“ skrifa vinir hans, Elías Þorvarðarson og Höskuldur Pálsson.

Sigríður Á. Andersen fyrrum dómsmálaráðherra og samnemandi Einars úr lögfræðinni segir útilokað að láta Einar fara framhjá sér í lagadeildinni, þar sem hann hafi skorið sig úr hópnum. „Það var þó glaðbeitt framkoma hans, afdráttarlausar skoðanir á hugmyndafræði og heimsmálum og einbeittur ásetningur hans til að koma þeim á framfæri sem setti Einar í hóp fyrirferðarmestu laganemanna á námsárum mínum.“

Segist hún ekki hafa getað betri lögfræðing sér við hlið, en Einar starfaði sem aðstoðarmaður Sigríðar í ráðherratíð hennar, og segir veikindi hans ekki hafa komið í veg fyrir að hann stæði vaktina með henni. „Einari varð tíðrætt um að hann vildi gera gagn og hafði unun af þeim verkefnum sem hann sinnti í ráðuneytinu. Framúrskarandi samstarfsmann og kæran vin, skipstjórann Einar Hannesson, kveð ég nú með trega en bið honum Guðs blessunar.“

Skemmtilegur vinnufélagi

Haukur Guðmundsson, vinur, samnemandi og vinnufélagi Einars í dómsmálaráðuneytinu segir Einar ekki aðeins hafa verið skemmtilegan vinnufélaga. „heldur bjó hann að reynslu úr stjórnsýslu og lögfræðiiðkun sem gerði honum kleift að leggjast á árarnar í flóknari málum svo um munaði. Þá dró hann ekki af sér í því að tala fyrir umdeildum málum. Virtist mér Einari aldrei fljúga það í hug að veikindi hans hefðu nokkur áhrif á starfsþrek eða afköst eða að til greina kæmi að hann hlífði sér með nokkrum hætti vegna þeirra.“

Maður andstæðna

Ragnhildur Hjaltadóttir fyrrum samstarfsfélagi Einars úr samgönguráðuneytinu segir að í Einari hafi búið miklar andstæður. „Hann var í senn íhald og bóhem, húmoristi og alvörugefinn, hrjúfur og hlýr. Ævintýramaður og jarðbundinn. En hann var fastheldinn á gildin sem mestu skipta – heiðarleika, traust og kærleika. Það var enginn svikinn af því að eiga traust hans og trúnað. Einar Hannesson var einstakur maður sem gleymist engum sem honum kynntust. Lífið er tómlegra án hans.“

Brennandi stjórnmálaáhugi og sólginn í fréttatengt efni

„Einar var afar vel upplýstur og snemma sólginn í hvers kyns fréttatengt efni. Er klukkan sló tuttugu mínútur yfir tólf á hádegi var heilög stund, þá voru lesnar fréttir. Sagan endurtók sig klukkan sex. Hann hafði brennandi áhuga á stjórnmálum,“ skrifar Óttar Pálsson lögmaður og bætir við stjórnmálaáhuginn hafi verið tilkominn þar sem þau hafa svo mikla þýðingu fyrir líf fólks, eins og Einar orðaði það sjálfur. „Frelsi einstaklingsins og takmörkuð ríkisafskipti voru hans hugmyndafræðilegu leiðarljós.“

Æðruleysi og hetjulund í veikindum

Hermann Sveinbjörnsson minnist Einars fyrir æðruleysi og hetjulund: „Æðruleysi og hetjulund Einars í veikindum hans gleymist seint. Mikið skarð er fyrir skildi og sár eftirsjá við brotthvarf Einars Hannessonar af vettvangi lífsins. En minningin um einstakan og mikilhæfan dreng lifir og gleymist aldrei.“

„Í huga Einars var tillitssemi og umhyggja mikilvægari en að kvarta yfir eigin veikindum. Hann vildi enga vorkunn, þetta snérist um að njóta ferðalagsins,“ skrifar Guðjón Már Guðjónsson. „Lánsamur er ég að hafa átt Einar sem náinn vin. Ég leita enn til hans hugmyndafræði um hamingjuna, réttlætiskennd og æðruleysi. Minning um einstakan dreng mun lifa.“

Atli Steinn Guðmundsson, fyrrum skólabróðir Einars segir að hann hafi verið „alveg einstakur í sinni kímnigáfu, góðu nærveru og því dásamlega hæglæti sem alltaf einkenndi hann. Ég kveð Einar Hannesson með öllu í senn, sorg, gleði og virðingu. Mikils hefði ég farið á mis hefði ég ekki kynnst þeirri sólskinssál sem Einar er. Við sjáumst hinum megin Einar, minn kæri vinur, ég hlakka til að heyra þig lesa mér pistilinn fyrir ævarandi rökleysur mínar enn á ný. Takk fyrir mig. Ykkur sem eftir lifið get ég sagt að þessi texti skrifaði sig nánast sjálfur og er í boði Einars Hannessonar. Ástvinum hans og fjölskyldu bið ég allrar blessunar á þungri stund.“

 

Æviágrip Einars

Einar var fæddur 16. janúar árið 1971 í Reykjavík.

Hann lauk embættisprófi í lögfræði árið 1998 og öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi árið 2000 en hann er einnig löggiltur fasteignasali. Þá aflaði hann sér framhaldsmenntunar í hagfræði og reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar við Harvard háskóla árið 2003 og í enskum sjó- og viðskiptarétti við Lloyd´s Maritime Academy 2008 og við London Metropolitan University 2011-2013 með sérstakri áherslu á enskan sjótryggingarétt og siglingar á heimskautaslóðum. Á meðan Einar stundaði laganám var hann við námsvist í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og sat í stjórn Heimdallar árin 1998-1999.

Einar starfaði sem lögfræðingur í samgönguráðuneytinu árin 1998-2002 og hafði umsjón með fjarskiptamálum og stefnumótun. Árið 2002 hóf hann störf sem erindreki Íslands gagnvart Evrópusambandinu á sviði fjarskipta-, samgöngu- og ferðamála. Á árunum 2003-2010 var Einar lögfræðingur hjá Eftirlitsstofnun EFTA þar sem hann hafði umsjón með innleiðingareftirliti EES löggjafar á sviði fjarskipta-, póst-, sjónvarps- og upplýsingasamfélagsþjónustu, samgangna og almannavarna auk tilskipunar um rafræn viðskipti í Noregi, Íslandi og Liechtenstein. Ábyrgð hans færðist yfir á svið samgöngulöggjafar að undanskildum flugmálum í þessum löndum árið 2005 auk almannavarna.

Árin 2010-2013 sigldi Einar á skútu yfir Atlantshafið og kannaði á þeim leiðangri tengsl laga og stjórnmálaákvarðana á lífsgæði auk þess að nema enskan sjórétt.
Í febrúar árið 2018 var hann ráðinn sem aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“