Matvælastofnun greindi frá því að með ítarlegri skimun hafi fundist gen af STEC E. Coli bakteríunni í þriðjungi sýna af íslensku lambakjöti í fyrra. Þá fannst lifandi baktería sem bar með sér eiturefni í 16% tilvika. Um 600 sýni voru tekin af sauðfé, nautgripum, svínum og kjúklingum, bæði af innlendum og erlendum uppruna og leitað var eftir salmonellu, kampýlóbakter og shigatoxinmyndandi E.coli, sem er afbrigði E.coli sem myndað getur eiturefnið shigatoxín.
Þykir þetta koma þeim illa sem lagst hafa gegn innflutningi á hráu kjöti hingað til lands, á þeirri forsendu að erlent kjöt sé varhugavert vegna þess að það sé fullt af sýklalyfjum, sem myndi til dæmis fjölónæmar bakteríur og sé því hættulegt heilsu fólks.
Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson er einn þeirra sem hafa varað við innfluttu kjöti. Hann segir í dag að í skýrslu MAST sé margt áhugavert sem ekki hafi komið fram og bendir hann á svínakjötið til dæmis, þar sem í ljós kom að 15 sýni voru af óþekktum uppruna.
Gagnrýnir Sigmar eftirlit með innflutningi:
„15 sýni voru með óþekktum uppruna? Hvernig stendur á því? Er virkilega ekki betra eftirlit með innflutningi en svo að það sé ekki hægt að gera grein fyrir 10% af heildar sýnatökunni?“
Sigmar baunar síðan á Ólaf Stephensen hjá Félagi atvinnurekenda, sem hefur barist hvað harðast gegn hverskyns höftum og bönnum gegn innflutningi erlends kjöts:
„Það kemur síðan ekki á óvart að Félag atvinnurekenda og Ólafur Stephensen munu reyna að gera sér mat úr þessu án þess að ræða aðalmálið sem snýr að þeirra málflutningi: eftirlit með innflutningi er ekki alveg 100% og sýnið sem reyndist sýkt var í ofanálag fjölónæm gagnvart sýklalyfjum.“
Félag atvinnurekenda hefur á samfélagsmiðlum sagt umræðuna um kjötið á villigötum og haldið orðum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis á lofti, sem sagði við Fréttablaðið:
„Þetta sýnir bara það að þetta er ekki eins og umræðan hefur verið um íslenska framleiðslu samanborið við þá erlendu. Sjúkdómsvaldandi bakteríur og sýklalyfjaónæmar bakteríur finnast líka í íslensku kjöti. Við erum ekki bara að tala um útlensk matvæli.“
Þann 29. maí síðastliðinn tilkynnti ríkisstjórn Íslands með pompi og pragt að Ísland hygðist vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur, enda ein helsta ógn við mannkynið, að mati Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnuninni, Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Matvælastofnun Evrópusambandsins.
Á meðal helstu tillagna til að koma þessu á koppinn voru að:
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra ætla að verja 45 milljónum króna til að koma þessum verkefnum af stað strax á þessu ári. Jafnframt ætlar ríkisstjórnin að tryggja framtíðarfjármögnun verkefnisins.
Sjá einnig: Innflutningur á ófrystu hráu kjöti:Hætta eða hræðsluáróður ?