Háskóla Íslands bárust nærri 5.600 umsóknir um grunnnám fyrir skólaárið 2019-2020 og nemur fjölgun umsókna milli ára tæplega 13% samkvæmt tilkynningu. Umsóknarfjöldinn er umtalsvert meiri en nemur fjölda þeirra sem lýkur stúdentsprófi í ár.
Þá reyndist heildarfjöldi umsókna um grunn- og framhaldsnám nærri níu þúsund að þessu sinni en þar af eru um 1.200 umsóknir frá erlendum nemendum. Aðsókn í kennaranám eykst töluvert milli ára og sama má segja um umsóknir um nám í hjúkrunarfræði, sálfræði, tilteknar verkfræðigreinar og félagsráðgjöf. Samanlagður fjöldi umsókna um grunnnám nú í vor var 5.570 sem eru rétt um 630 fleiri umsóknir en í fyrra. Sé horft tvö ár aftur í tímann nemur fjölgun umsókna um 25%.
Umsóknirnar dreifast svo á fimm fræðasvið skólans: Félagsvísindasviði bárust rúmlega þúsund umsóknir. Sem fyrr er viðskiptafræði vinsælasta greinin innan sviðsins en rúmlega 400 vilja hefja nám í greinni í haust. Þá sækjast rúmlega 150 eftir því að hefja nám í félagsráðgjöf sem er þriðjungsfjölgun umsókna milli ára, um 130 stefna á hagfræði og sami fjöldi á lögfræði en Lagadeild nýtir líkt og síðustu ár A-próf við inntöku nemenda í haust. Þá stefna um 60 stúdentar á nám í mannfræði og svipaður fjöldi á nám í félagsfræði.
Heilbrigðisvísindasvið fékk hátt í 1.700 umsóknir en inni í þeirri tölu eru rúmlega 420 nemendur sem þreyttu inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun við Læknadeild Háskóla Íslands fyrir helgi. Alls voru 323 skráðir í intökupróf í læknisfræði og þá sóttu 98 manns um inngöngu í sjúkraþjálfun en þeir voru 64 í fyrra. Í læknisfræði verða teknir inn 54 nemendur og 35 í sjúkraþjálfun en þeir sem ekki fá inngöngu í námsleiðirnar tvær geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 20. júlí nk.
Sálfræði er sem fyrr vinsælasta einstaka námsgreinin á sviðinu en sléttar 400 umsóknir bárust um námið sem er nærri fimmtungsfjölgun milli ára. Þá stefna 273 á nám í hjúkrunarfræði og fjölgar umsóknum um 55% milli ára. Deildin nýtir samkeppnispróf til inntöku 120 nemenda að loknu fyrsta misseri í desember nk. í stað A-prófs líkt og undanfarin ár. Þá vilja nærri 90 stúdentar í lífeindafræði og rúmlega 60 í næringarfræði en fjölgun umsókna í síðarnefndu námsleiðinni nemur nærri 25%.
Hugvísindasviði bárust á tólfta hundrað umsóknir um nám. Þar er líkt og áður íslenska sem annað mál vinsælasta greinin en alls reyndust umsóknirnar nærri 390 í annaðhvort BA-nám eða styttra hagnýtt nám í greininni. Rúmlega 400 manns sækjast eftir að hefja nám í einhverjum þeirra fjölmörgu tungumála sem í boði eru í Háskóla Íslands, þar af nærri 80 í eins árs hagnýtt nám til grunndiplómu í ýmsum tungumálum sem verður í fyrsta sinn í boði á næsta skólaári. Enn fremur stefna nærri 60 á nám í íslensku í haust og svipaður fjöldi í sagnfræði.
Menntavísindasvið fékk rúmlega 800 umsóknir. Umsóknum um grunnskólakennaranám fjölgaði um 45% milli ára eins og fram kom fyrir helgi en sérstakt þjóðarátak hefur staðið yfir til að laða fólk í kennaranám hérlendis. Hjá Menntavísindasviði er langmest fjölgun í Deild faggreinakennslu en hún er Sæmundargötu 6 Sími 525 4000 hi@hi.is 101 Reykjavík Fax 552 1331 www.hi.is 54% milli ára en í Deild kennslu- og menntunarfræða er fjölgunin 25%.
Íþrótta- og heilsufræði er áfram vinsæl innan sviðsins en 130 sækja um inngöngu í námsleiðina og þá vilja rúmlega 110 í þroskaþjálfafræði sem er um fjórðungsfjölgun milli ára. Í grunnnám í leikskólakennarafræði er fjöldi umsókna svipaður og í fyrra en rétt er að hafa í huga að frá 2016-2018 fjölgaði umsóknum í leikskólakennaranám um 86%.
Verkfræði- og náttúruvísindasvið fékk tæplega 950 umsóknir að þessu sinni og eru um 400 þeirra í verkfræði- og tæknifræðigreinar innan sviðsins. Athygli vekur að umsóknum í rafmagns- og tölvuverkfræði fjölgar um 50% og eru þær rúmlega 70 og þá vilja fjórðungi fleiri í umhverfis- og byggingarverkfræði, eða 75 manns. Tölvunarfræði er vinsælasta grein sviðsins en alls hyggjast rúmlega 200 leggja greinina fyrir sig í haust. Þá eykst áhugi á lífefna- og sameindalíffræði umtalsvert milli ára og eru umsóknir um námsleiðina rúmlega 60 og 70 til viðbótar hafa sett stefnuna á líffræði.
Samanlagður fjöldi umsókna í grunnnámi við Háskóla Íslands er töluvert meiri en sem nemur fjölda þeirra sem ljúka stúdentsprófi í ár en þess má geta að tveir skólar, Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn á Akureyri, brautskrá nú í vor tvo árganga stúdenta í tengslum við styttingu námstíma til stúdentsprófs. Fjölgun umsókna milli ára er í takt við áætlanir Háskólans vegna styttingarinnar og þrátt fyrir að fjölguninni fylgi töluverðar áskoranir fyrir starfsfólk og innviði skólans mun hann áfram leggja mikla áherslu á gæði kennslu og afbragðsþjónustu við nemendur.
Umsóknir um framhaldsnám fyrir næsta skólaár reyndust 3.178 sem nánast sami fjöldi og í fyrra, en þá var fjölgunin 12% milli ára. Félagsvísindasviði bárust flestar umsóknir um nám á framhaldsstigi, eða 1.160 en þar á eftir kemur Menntavísindasvið með rúmlega 700 umsóknir. Enn fremur sækja nærri 350 um einhverja af fjölmörgum þverfræðilegum námsleiðum skólans, flestir um menntun framhaldsskólakennara eða um 130. Auk þess bárust námsleið í umhverfis- og auðlindfræði 82 umsóknir og námsleiðum í lýðheilsuvísindum 67 og þá hyggja 13 á nám í nýrri námsleið í iðnaðarlíftæki sem Háskóli Íslands býður upp á í samstarfi við alþjóðlega lyfjafyrirtækið Alvotech. Þessu til viðbótar hafa liðlega 100 manns sótt um doktorsnám við skólann árið 2019.