Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir þingmenn Miðflokksins nú hægja viljandi á störfum þingsins með því að „þvæla endalaust“ um öll mál sem rædd eru á Alþingi, ekki bara þriðja orkupakkann. Virðist þetta kornið sem fyllti mælinn hjá Loga, því hann leggur til að Miðflokknum verði hent út úr Alþingishúsinu:
„Nú hafa þingmenn víkkað út orkupakkaþófið og eru farnir að þvæla endalaust um öll mál sem sett eru á dagskrá – augljóslega til að hægja á störfum þingsins. Ég geri það því að tillögu minni að Miðflokknum verði gert að ræða sín hugðarefni á vel upplýstum hátíðapallinum á Þingvöllum, túristum til skemmtunar; við hin 54 getum þá átt eðlilegri umræðu í þinghúsinu.“
Það ætti ekki að væsa um Miðflokkinn á Þingvöllum, en líkt og kunnugt er þá nam kostnaðurinn við hátíðarþingfundinn á Þingvöllum í fyrra tæpum 87 milljónum króna, en átti samkvæmt fyrstu áætlunum að kosta 45 milljónir.
Þótti mörgum nóg um þegar kom í ljós að kostnaðurinn við lýsingu viðburðarins, um hábjartan dag, kostaði rúmar 22 milljónir.