Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, tekur Davíð Oddsson á beinið í grein í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið eru skrif Davíðs í Reykjavíkurbréfi um Sjálfstæðisflokkinn og 90 ára afmæli hans á dögunum, hvar Davíð fór ófögrum orðum um sinn gamla flokk, en hann hefur sagt í skrifum sínum að endalok Sjálfstæðisflokksins væri ekki „endilega harmsefni“ og virðist mun hrifnari af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Miðflokknum heldur en Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum.
Sjá nánar: Davíð hraunar yfir Sjálfstæðisflokkinn og hæðist að 90 ára afmælishátíð hans
Sjá einnig: Davíð Oddsson segir endalok Sjálfstæðisflokksins ekki endilega vera „harmsefni“
Halldór gefur Davíð góð ráð um bréfaskriftir, að þau sé ekki gott að rita í reiði:
„Bréfaskriftir geta verið hættulegar af því þær koma upp um mann, – lýsa því í hvaða sálarástandi maður er þá stundina. Og auðvitað hefnir það sín, ef illa liggur á manni, – þá miklar maður hlutina fyrir sér og freistast til að fara ekki rétt með. Faðir minn kenndi mér að senda ekki slík bréf frá mér fyrr en að morgni, sem var holl ráðlegging og olli því að þau voru aldrei send.“
Halldór nefnir einnig að afmælishátíð Sjálfstæðisflokksins hafi heppnast vel, en að margir hafi saknað þess að sjá ekki fyrrverandi formenn flokksins á svæðinu:
„Margir söknuðu þess þó, að sjá ekki sína gömlu formenn, þig og Þorstein Pálsson. Hvorugur ykkar sýndi sig en hefði þó farið vel á því að þið hefðuð komið saman, – jafnaldrar og slituð barnsskónum á Selfossi og bjugguð meira að segja um hríð við sömu götuna hvor á móti öðrum.“
Þá lofar Halldór samstöðu stjórnarflokkanna og stöðu þjóðmála og þjóðarbúsins, en telur að Davíð hafi farið illa að ráði sínu er hann endurbirti hluti af grein Jóns Hjaltasonar, sem fór einnig hörðum orðum um Sjálfstæðisflokkinn og sagði hann lítið hafa gert til að lækka ofurskatta vinstri-stjórnarinnar, og stæði að baki fóstureyðingarfrumvarpinu. Segir Halldór að grein Jóns hafi verið full af ósannindum og rangfærslum og tekur dæmi um ráðningu seðlabankastjóra, sem Jón segir að hafi verið ráðinn tvisvar í starf sitt:
„Hið rétta er, að Már var ráðinn í júlí 2009 en þá var vinstri stjórn í landinu. Már var síðan endurráðinn eftir auglýsingu 2014 og skipaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í stöðuna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var þá forsætisráðherra og hafði um það að segja. Rétt er að rifja upp, að hann var formaður Framsóknarflokksins í byrjun árs 2009 þegar allur þingflokkur þess flokks greiddi atkvæði með því að breyta lögum um Seðlabankann til þess að losna við þá seðlabankastjóra sem þá voru. Einn þeirra varst þú, Davíð Oddsson,“
segir Halldór.
Halldór hjólar einnig í Davíð vegna afstöðu hans til þriðja orkupakkans og nefnir að hann muni skrifa meira til Davíðs á næstunni:
„Margt fellur mér illa í þessu þínu síðasta Reykjavíkurbréfi en verst þó, að þú skulir halda því fram að í þriðja orkupakkanum felist framsal á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. Það er ekki fótur fyrir þessari fullyrðingu. Og það er raunar athyglisvert, að þú skulir setja hana fram. Þjóðin á það þér að þakka, að samningar tókust um hið Evrópska efnahagssvæði og þú sannfærðir mig og aðra um, að sá samningur rúmaðist innan ákvæða stjórnarskrárinnar. Sömuleiðis fyrsti og annar orkupakkinn. Þar vannstu gott verk og þarft. Mér liggur meira á hjarta en það verður að bíða næstu greinar sem birtist innan fárra daga ef guð lofar.“