Farið er ófögrum orðum um Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sem talið er fullvíst að fyrrverandi formaður flokksins, Davíð Oddsson, riti. Þar segir að fámennt og tíðindalaust hafi verið á 90 ára afmælis flokksins á dögunum. Hnýtt er í heiðurgesti á afmælinu. Um einn þeirra, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og formann VG skrifar Davíð:
„Fyrsti heiðursgestur flokksins var nýbúinn að lýsa því yfir að hún vildi að sett yrðu lög sem heimiluðu konum að ákveða að farga ófæddu barni sínu allt þar til komið væri að fæðingu þess eftir 9 mánaða meðgöngu.
Það er enginn vafi á því að væru almennir sjálfstæðismenn spurðir um þessa draumsýn formanns VG þætti yfirgnæfandi meirihluta þeirra þetta fjarstæðukennd afstaða ef ekki beinlínis óhugguleg.“
Þá segir að varaformaður Samfylkingarinnar (Heiða Björg Hilmisdóttir) hafi einnig verið heiðursgestur, en um forystu flokksins skrifar Davíð:
„Þá mun varaformaður Samfylkingar einnig hafa verið í hópi útvalinna heiðursgesta. Samfylkingarforystan kallar barn sem kona gengur með „frumuklasa“ allt að fæðingu eins og fram hefur komið.“
Davíð spyr hvers vegna forystan hafi læðst með veggjum á þessum tímamótum, hvers vegna svona lítið hafi farið fyrir afmæli flokksins. Segir hann mikla óánægju vera í flokknum:
„En af hverju þurfti að læðast með veggjum með þetta afmæli? Það er vissulega megn óánægja í flokknum og þá ekki síst meðal kjósenda hans og hugsanlegra kjósenda með óskiljanlega framgöngu flokksins í orkupakkamálinu, þar sem hiklaust er byggt á blekkingum, sem raunar eru fjarri því að vera lofsverðar.“
Er síðan endurbirtur hluti af grein eftir Jón Hjaltason sem fer hörðum orðum um flokkinn, og tekið undir með þeim skrifum. Ávirðingar Jóns eru meðal annars þær að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lítið gert í því að lækka meinta ofurskatta sem lagðir voru á þjóðina í fjármálaráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar rétt eftir hrun. Ekkert sé gert til að hamla brautargengi fáránlegrar Borgarlínu. Flokkurinn geri ekkert til að koma böndum á fjársóun í heilbrigðisráðuneytinu og hann styðji takmarkalausar fóstureyðingar.
Auk þess sé forystan að hnýta í sinn merka, fyrrverandi formann, Davíð Oddsson. Jón skrifar – og Davíð er ánægður með skrif hans:
„Nú um stundir sýnist mér sem flokksforystunni þyki helst við hæfi að hnýta í þann formann sem verið hefur þjóðinni og flokknum drýgstur og bestur. Mér stendur stuggur af ykkur því ég hefi þungar áhyggjur af flokknum. Ég hef rætt við hundruð félagsmanna sem hugnast ekki ferðalag ykkar og hyggjast ekki slást í þá för.“