Ragnar Önundarson, sem gagnrýnt hefur forystu Sjálfstæðisflokksins undanfarið, sem andstæðingur innleiðingar þriðja orkupakkans, kallaði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara og þingmann flokksins, „sætan krakka“ og vöktu þau ummæli hörð viðbrögð. Þá taldi hann Áslaugu þurfa að leita sér sálfræðiaðstoðar í stað þess að sækjast eftir frama innan Sjálfstæðisflokksins, en Áslaug sagðist í útvarpsþætti stefna að því að verða forsætisráðherra einn daginn. Einnig sagði Ragnar Sjálfstæðisflokkinn óheppinn í kvennamálum.
Í vikunni kallaði hann leiðara Ólafar Skaftadóttur, ritstjóra Fréttablaðsins „aumkunarverðan“ en í honum fólst gagnrýni á Ragnar og þann hóp er hann tilheyrir að hennar mati, en hún taldi þeirra skoðanir rykfallnar og eftir þeim væri minnkandi eftirspurn.
„Þeim er greinilega farið að svíða, sem undir sig míga,“ sagði Ragnar um Ólöfu af því tilefni.
Ragnar hefur einnig verið gagnrýndur af Loga Bergmanni Eiðssyni fjölmiðlamanni, en þá taldi Ragnar að Logi væri að misnota aðstöðu sína og sárnaði að Logi hafi kallað hann „karlpung“.
Ragnar vísar því hinsvegar á bug að hann sé að vega að konum með ummælum sínum:
„Mér er með öllu óskiljanlegt að, gagnrýni mín geti verið skilin á þann veg að ég sé að vega að ,,konum”. Sú staðreynd að ungu stjórnmálamennirnir sem ekki hafa valdið verkefnum sínum í Orkupakkamálinu eru konur kemur þessu máli ekkert við !“
segir Ragnar og telur alla gagnrýni á sig tilraun til þöggunar:
„Auðvitað eru vinir þeirra að reyna að koma þeim til varnar og dettur ekkert betra í hug en að gera mér upp andstöðu við ,,ungar konur”, ég er jú andhverfan, ,,gamall karl”. Þetta er hins vegar bara ósköp venjuleg og augljós tilraun til þöggunar. Krafan um að menn ritskoði sjálfa sig og fylgi rétthugsun samtímans er sterk. Vinirnir vilja að ungu stjórnmálamönnunum sé hlíft við gagnrýni. Ungi ritstjórinn á Fréttablaðinu er kona. Það kemur málinu augljòslega ekkert við. Hún hætti sér út á hálan ís í gær og fékk sín svör frá mér. Ætlar ekki einhver að saka mig um árás á konu ?“
Ragnar rifjar einnig upp er hann setti út á mynd af Áslaugu Örnu árið 2017, sem honum fannst ósæmileg, en Áslaug var þar með blautt hár, sem virtist fara fyrir brjóstið á Ragnari þar sem hún væri að sýna „kynveruna“ í sér. Fékk Ragnar á baukinn á samfélagsmiðlum fyrir ummæli sín.
Hann segir nú að slík myndbirting grafi undan trausti Áslaugar sem stjórnmálamanns og gildi einu um hvers kyns viðkomandi sé, því hann hafi einu sinni gagnrýnt Bjarna Benediktsson líka:
„Fb-vinir mínir hafa tekið eftir orðahnippingum mínum og Loga Bergmanns vegna efasemda minna um framgöngu forystu Sjálfstæðisflokksins, sem ég hef verið félagi í í hálfa öld. Logi fór alveg rétt með þegar hann sagði … “honum fannst Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ekki gefa rétta mynd af sér sem stjórnmálamanni á Facebook”.
Þetta var vegna myndar sem hún birti af sjálfri sèr, sem mér fannst til þess fallin að grafa undan trausti hennar og þar með fylgi flokksins. Ég gerði líka athugasemd þegar formaðurinn kynnti sig sem ,,IceHot1” fyrir nokkrum árum, það fannst mér ekki heldur gott fyrir flokkinn. Engan greinarmun gerði ég því á kynjum.“
Sjá einnig: Ragnar gerði það aftur:„Glæsilegasta konan er varaformaður og sætasti krakkinn ritari“
Sjá einnig: Áslaug Arna um „óeðlilegan áhuga Ragnars:„Hvað næst? #ekkiveraragnar“
Sjá einnig: Ragnar útskýrir ummæli sín:„Nokkrar viðkvæmar sálir hafa hrokkið í varnarstöðu“
Sjá einnig: Telur Áslaugu eiga að leita til sálfræðings í stað þess að sækjast eftir æðsta frama
Sjá einnig: Ragnar skammar Loga Bergmann:„Hann var að mínum dómi að misnota aðstöðu sína“