Bára Halldórsdóttir, sem gert hefur verið að eyða upptökum sínum úr Klausturmálinu fyrir 5. júní af Persónuvernd, hyggst gera einmitt það á morgun, með viðhöfn sem hún kallar Báramótabrenna.
Stofnað hefur verið til viðburðar á Facebook undir því nafni, en eyðingin sjálf mun fara fram á Gauknum.
Aðspurð um hvernig sjálf eyðingin færi fram svaraði Bára:
„Listrænn eldur en vélræn eyðing.“
Í lýsingu viðburðarins segir:
„Báru Halldórsdóttur hefur verið gert að eyða Klaustur-upptökunum og mun hún gera slíkt með viðhöfn á Gauknum þriðjudagskvöldið 4. júní. Herlegheitin hefjast upp úr kl. 21.
– Lögfræðingar Báru munu sjá um að skrásetja viðburðinn
– Halldór Auðar Svansson flytur opnunarávarp fyrir hönd stuðningshópsins Takk Bára
– Valdir kaflar upptökunnar verða kvaddir sérstaklega
– Upptökum verður svo eytt með viðhöfn og í kjölfarið er fólki frjálst að grípa í míkrófóninn, fyrst til að segja eitthvað uppbyggilegt og svo breytist Gaukurinn í allsherjar karaoke-partý.“
Ekki er vitað hvort að fulltrúi Persónuverndar hyggist verða vitni að gjörningnum, eða fulltrúi sýslumanns, en lögfræðingur Báru mun taka eyðinguna sjálfa upp í nærmynd og senda til Persónuverndar.