Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir hefur komið víða við á viðskiptaferli sínum sem nær aftur til upphafs tíunda áratugarins. Hann er barnabarnabarn Thors Jensen athafnamanns, barnabarn Hallgríms Fr. Hallgrímssonar forstjóra og sonur Björgólfs Guðmundssonar, sem áður var einn áhrifamesti maður í íslensku viðskiptalífi. Björgólfur rak skemmtistaðina Hótel Borg og Tunglið, og síðar meir átti hann og rak bruggverksmiðjur í Rússlandi ásamt föður sínum. Þeir feðgar sneru síðan heim til Íslands og keyptu Landsbankann. Björgólfur eignaðist stóran hlut í lyfjafyrirtækinu Actavis árið 2000 og var á næstu árum gífurlega umsvifamikill í viðskiptum hér á landi og erlendis.
Björgólfur er fyrsti og eini Íslendingurinn sem kemst inn á lista Forbes yfir 500 ríkustu menn í heimi en hann féll af þeim lista í bankahruninu. Hann komst aftur inn á listann árið 2015 og voru þá eignir hans metnar á 1,3 milljarða dala. Hefur hann færst ofar á listanum síðan þá og situr hann nú í 1.116 sætinu á listanum. Auður hans er metinn á 2,1 milljarð dala, eða um á 254 milljarða króna.
Björgólfur Thor býr að mestu í London ásamt eiginkonu sinni, Kristínu Ólafsdóttur, og þremur börnum, en ættaróðal hans er við Tjörnina í Reykjavík.