Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri og eigandi WOW air, datt sannarlega í lukkupottinn árið 2015, þegar hann fékk símtal frá Steve Udvar-Házy, stofnanda og forstjóra Air Lease Corporation í Bandaríkjunum, eins stærsta flugvélaleigufyrirtækis heims.
Frá samskiptum þeirra er greint í bókinni WOW air, ris og fall flugfélags, eftir Stefán Einar Stefánsson, sem virðist hafa verið fluga á vegg:
„Sæll, herra Mogensen. Bið þig að afsaka og ég vona að ég sé ekki að trufla þig. Ég heiti Steve Házy. Hefurðu heyrt á mig minnst,“ segir röddin í símanum. Það tekur Skúla nokkra stund að ná áttum en hann kveikir strax á perunni. „Já, að sjálfsögðu,“ er svarið og það eru engar ýkjur.“
Í bókinni er því lýst þegar Steve Házy kom hingað til lands daginn eftir símtalið á átta milljarða króna einkaflugvél sinni, sem hann flaug sjálfur, til þess að hitta Skúla Mogensen á heimili hans að Fjölnisvegi, en Skúli hafði áður gefið út að hann vildi auka umfang rekstursins og fljúga til vesturstrandar Bandaríkjanna. En til þess vantaði flugvélar, sem Steve sagðist ætla að útvega Skúla:
„Þegar þeir kveðjast í lok kvölds eftir nokkurra tíma spjall, réttir Házy fram höndina og segir: „Skúli, ef þú vilt, þá er ég tilbúinn að fjármagna helminginn af flota WOW air. Þú veist hvar mig er að finna.“
Eigur Steven Házy voru metnar af viðskiptatímariti Forbes og þær sagðar um 470 milljarðar króna, sem gerir hann að 529. ríkasta manni heims.
Steve er eitt þekktasta nafnið í flugbransanum, en hann stofnaði fyrirtæki sitt International Lease Finance Corporation árið 1973 og gerði það að stærsta flugvélaleigufyrirtæki heims, sem hann seldi árið 1990 til tryggingarisans AIG, en gerðist jafnframt forstjóri og stjórnarformaður þess til ársins 2010, þegar upp úr slitnaði. Stofnaði hann þá ALC, sem í fyrra var með í pöntun 438 nýjar vélar frá Boeing og Airbus.
Stefán Einar fer stuttlega yfir sögu Steve í bók sinni, sem fæddist inn í ánauð kommúnismans í Ungverjalandi árið 1946. Hann varð heltekinn af flugvélum sem barn, þegar faðir hans fór með hann á flugsýningu og þaðan varð ekki aftur snúið. Fjölskylda Házy flutti til Svíþjóðar eftir byltinguna 1956 og þaðan til Bandaríkjanna. Sautján ára fékk hann flugréttindi og komst inn í UCLA í Kaliforníu, en starfaði sem strandvörður á sumrin.
Hann stofnaði flugfélagið Astro air aðeins 21 árs gamall, sem fór lóðbeint á hausinn. Þar dró hann samt mikilvægan lærdóm af reynslunni, þegar hann áttaði sig á að leigusali vélarinnar sem hann tók á leigu, fengi alltaf borgað í hverjum mánuði. Sá hann þá að skynsamlegra væri að fara í leigubransann.
„Ferill Udvars-Házys er einstakur í sinni röð og honum hefur verið lýst sem einum áhrifamesta manni fluggeirans í áratugi. Svo mikil hafi áhrif hans verið að Boeing og Airbus hafi jafnvel tekið tillit til athugasemda hans þegar fyrirtækin hönnuðu vélar sínar,“
segir Stefán Einar í bók sinni.
Eins og kunnugt er fór Skúli á bak við Steve er hann gerði samkomulag við Isavia um að kyrrsetja eina af Airbus vélum félagsins vegna skuldar WOW við Isavia, sem veð fyrir skuldinni.
Steve Hászy var ekki látinn vita af þessu samkomulagi og segir Stefán Einar að með þessum svikum hafi Skúli fengið rangan mann upp á móti sér; hann eigi ekki afturkvæmt í flugbransann.
Sjá einnig: Segir að Skúli muni aldrei koma nálægt flugrekstri aftur – Hann fékk rangan mann upp á móti sér