Búið er að fresta umræðum um þriðja orkupakkann á Alþingi svo hægt sé að taka önnur mál fyrir. Þetta var niðurstaða fundar forystumanna flokkanna í gær:
„Menn voru aðeins í samskiptum í gærkvöldi og í morgun. Menn sáu ástæðu til að funda, forystumenn flokkanna. Ég kallaði þar afleiðandi í formenn þingflokkanna og gerði þeim grein fyrir því að það væri viðleitni til þess að reyna að tala saman. Þá var ákveðið að hverfa aðeins frá dagskránni, breyta röð á dagskrá, og nýta tímann til að tala um þau 35 mál sem bíða,“
sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, við RÚV.
Ekki er ljóst hvort að orkupakkinn verði settur aftur á dagskrá þessa þings, eða hvort frestunin nær til haustsins:
„Ég get ekkert sagt um það. Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar. Þetta er bara tímabundið samkomulag, eiginlega fyrir daginn í dag, að búa til gott andrúmsloft fyrir þau samtöl sem eiga sér stað. Það eru allir óbundnir af því ef þau skila ekki árangri.“