Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði með bandarískri þingmannanefnd undir forystu Lisu Murkowski í Stjórnarráðinu í dag, samkvæmt tilkynningu.
„Heimsóknin til Íslands er hluti af ferð þingmannanefndarinnar til fleiri ríkja Norðurslóða með það að markmiði skoða áhrif loftslagsbreytinga á svæðinu, kynna sér tækninýjungar og innviðauppbyggingu á sviði orkumála og ræða málefni tengd öryggis- og varnarmálum.“
Murkowski, sem er repúblikani, er á móti jákvæðri mismunun, kaus gegn umbótum í heilbrigðismálum í stjórnartíð Obama, var á móti hjónabandi samkynhneigðra en hefur síðan snúist nokkuð í afstöðu sinni.
Hún er andsnúin hugmyndum Trump Bandaríkjaforseta um að byggja vegg við landamæri Mexíkó og styður ekki hugmyndir hans um hert innflytjendalög.
Þá er hún meðlimur í NRA byssusamtökunum, styður réttinn til að bera vopn og hefur kosið gegn takmörkunum á byssueign.