Aðförin að einkabílnum er hvergi nærri hætt ef marka má leiðara Morgunblaðsins í dag, hvar Davíð Oddsson mundar lyklaborðið að öllum líkindum. Hann gagnrýnir borgarstjóra og borgarstjórnarmeirihlutann fyrir „vaxandi róttækni“ í loftslagsmálum með skattlagningu, en til skoðunar er hjá borginni að leggja veggjöld á bíla, samkvæmt Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, formanni samgöngu- og skipulagsráðs, en slíkt hefur verið gert í Noregi með það að markmiði að draga úr umferð.
Davíð segir umferðarvandamálið sjálfsakapað hjá borginni:
„Meirihlutinn í borginni hótar enn hærri sköttum vegna umferðartafa sem hann bjó sjálfur til. Öfugt við það sem var þegar vinstrimenn tóku til við að stjórna Reykjavík eru skattar í hæstu hæðum. Þetta dugar þó ekki til og nú vilja borgaryfirvöld leggja enn þyngri skatta á borgarbúa. Þessa nýju skatta á að rökstyðja með því að umferðin gangi hægt, en hún gengur einmitt hægt vegna þess að borgaryfirvöld hafa eyðilagt gatnakerfið með „vaxandi róttækni“. Og þessar tafir sem borgarbúar mega þola á hverjum degi fela að sjálfsögðu í sér meiri útblástur en þegar umferðin er greið og bílar þurfa ekki að standa löngum stundum og brenna jarðefnaeldsneyti að ástæðulausu. Rétt eins og þarflausar flugferðir borgarfulltrúa valda óþarfa losun gróðurhúsalofttegunda. Borgarfulltrúarnir ættu að byrja á því að draga úr óþarfa flakki, sem kostar borgarbúa talsvert fé en skilar þeim minna en engu, og greiða fyrir umferð, áður en þeir fara að hóta frekari skattlagningu,“
segir Davíð, en borgarstjórn var í Osló á höfuðborgar- og umhverfisráðstefnu á dögunum. Nefnir Davíð að borgarstjóri hafi talað um að framundan væru ár umbreytinga í skipulagsmálum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og því þyrfti að taka nauðsynlegar en óvinsælar ákvarðanir:
„Þetta eru sérkennileg skilaboð frá manni sem nýlega hefur lagt að baki langt flug til að sækja ráðstefnu.“
Davíð segir meirihlutann í borginni haldinn þráhyggju gagnvart einkabílnum:
„Þráhyggja borgaryfirvalda í skipulagsmálum, sem ef til vill mætti kalla „vaxandi róttækni“ eins og borgarstjóri lýsir afstöðunni til loftslagsmála, hefur skilað sér í því að bílaumferð er farin að einkennast af miklum töfum á ákveðnum tímum dagsins. Bent hefur verið á hið augljósa, að þessu verði að mæta með greiðari götum, til dæmis mislægum gatnamótum og frekar fleiri akreinum en færri. Borgaryfirvöld hafa hins vegar brugðist við æ verra ástandi með „vaxandi róttækni“ sem sýnir sig meðal annars í því að þrengja götur og hafna því að gerð verði mislæg gatnamót, jafnvel þó að ríkið sé tilbúið að standa straum af kostnaði við þau. Ástæðan fyrir þessu virðist vera sú, engin önnur skýring er möguleg, að borgarfulltrúar meirihlutans séu á móti einkabílum. Slík farartæki falli einfaldlega ekki að þeirri vaxandi róttækni sem einkennir stefnu borgaryfirvalda, sem vilja sjá borgarbúa stíga út úr einkabílnum og inn í strætisvagna, sem bráðlega á að setja á stera og kalla borgarlínu, með tugmilljarða kostnaði hið minnsta.“
Davíð telur að meirihlutinn í borgarstjórn þurfi að átta sig á staðsetningu Íslands á hnettinum þar sem hér sé ekki alltaf sól og blíða:
„…á Íslandi er ekki alltaf sól og blíða og þegar fara þarf á milli nokkurra staða hér og þar í borginni, til dæmis að sækja börn í leikskóla, fara í verslanir eða sækja margvíslega þjónustu, þá getur verið afar óþægilegt og tímafrekt að þurfa að skipta oft um strætó eða ganga langar vegalengdir frá stoppistöð að áfangastað. Í hlýrri löndum og borgum, til dæmis Ósló eða Kaupmannahöfn, að ekki sé talað um borgir enn sunnar í Evrópu, horfa mál allt öðruvísi við. Borgarfulltrúar í Reykjavík verða hins vegar að átta sig á því hvar borgin þeirra er á jarðarkringlunni áður en þeir fara að skipuleggja.“