Orkan okkar, hagsmunasamtök sem berjast gegn innleiðingu á þriðja orkupakkanum, hafa lagt fram kæru til Vinnueftirlitsins vegna „yfirstandandi brota“ á Alþingi, á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Mbl.is greinir frá.
Er óskað eftir því að Vinnueftirlitið eða lögreglan grípi til aðgerða vegna þessa.
Miðflokkurinn, sem barist hefur gegn þriðja orkupakkanum, hefur með málþófi sínu dregið störf þingsins um eina viku, þar sem ekki komast önnur mál á dagskrá á meðan og umræður standa yfir fram eftir morgni.
Birgir Örn Steingrímsson, einn talsmanna Orkunnar okkar, sagði aðspurður hvort það væri ekki Miðflokknum að kenna að vinnutími Alþingis hefði riðlast með þeim hætti sem raun ber vitni, að svo væri ekki:
„Þingmenn eiga að geta rætt sín hugðarefni í vinnunni, á eðlilegum tíma. Það er skrítið að það sé hægt að láta fólk vinna á þessum tímum. Það væri vel hægt að fresta þessu máli,“
segir Birgir, sem taldi betra að skera á hnútinn með þeim hætti, frekar en að Miðflokkurinn hætti málþófi sínu.
Í tilkynningu Orkunnar okkar segir:
„Nú hagar svo til að nefnda- og þingfundir á Alþingi hafa staðið yfir nánast samfellt sólarhringum saman. Fundað er á víxl í nefndum og í þinginu, hvíldarlaust. Störf Alþingis eru um þessar mundir í andstöðu við Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum IX kafla laganna um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Lögboðinn 11 klst. hvíldartími er órafjarri því að vera virtur.
Lög þessi eru vitaskuld ekki sett að tilefnislausu. Mikilvægt er að starfsmenn, ekki síst alþingismenn, geti haldið fullri einbeitingu við störf sín og bíði ekki tjón á heilsu sinni. Þá er einnig að því að hyggja að aðilar sem hagsmuna eiga að gæta og almenningur hafi tök á að fylgjast með umræðunni í rauntíma.
Málið er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að um sjálfan löggjafann er að ræða og með því háttalagi sem hér er vísað til er gefið í skyn að lögum þurfi bara að fylgja þegar hentar.“
Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum frá 1980, segir að ákvæðið um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma gildi ekki um „æðstu stjórnendur eða aðra þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir“, sem heimfæra mætti upp á Alþingismenn.