fbpx
Laugardagur 02.nóvember 2024
Eyjan

Þorsteinn hjólar í „vanhæfan“ Steingrím: „Forsætisnefnd Alþingis hin raunverulega siðanefnd“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 22. maí 2019 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins, og einn af stofnendum Viðreisnar, gagnrýnir fyrirkomulag og framkvæmd forsætisnefndar varðandi mál Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, í pistli á Hringbraut. Hann segir Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, einnig vera vanhæfan og rekur ferlið um mál Þórhildar og Ásmundar Friðrikssonar.

Þórhildur er fyrsti þingmaðurinn í sögu Íslands sem tekin er fyrir af siðanefnd, vegna ummæla hennar um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, en forsætisnefnd á eftir að fjalla um þá niðurstöðu. Þórhildur Sunna tók úrskurði siðanefndar illa og braut trúnað um niðurstöðuna, sem gilda átti þar til forsætisnefnd fjallaði um hana efnislega. Hefur hlakkað í hægri mönnum vegna viðbragða Þórhildar, sem sögð eru merki um hræsni; því Píratar hafi verið duglegir að gagnrýna aðra fyrir skort á siðferði.

Þórhildur sé sönnun þess að kerfið virki ekki

Þorsteinn segir viðbrögð Þórhildar Sunnu ámælisverð:

„Betur hefði farið á því að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir formaður þingflokks Pírata hefði virt ráðgefandi áliti siðanefndar Alþingis, sem forsætisnefnd þingsins á þó eftir að taka afstöðu til. Eitt er að vera ósammála röksemdafærslu en annað að virða ekki niðurstöðu fagnefndar um þessi efni. Virði þingmenn ekki slíkar niðurstöður virkar kerfið einfaldlega ekki.“

Þorsteinn telur þó að Píratar hafi nokkuð til síns máls þegar störf forsætisnefndar eru vegin og metin:

„En það er fleira sem veldur því að verulegir misbrestir virðast vera í öllu ferli siðferðilegra álitamála á Alþingi. Píratar og aðrir þingmenn geta til að mynda með gildum rökum bent á verulegar brotalamir í aðkomu forsætisnefndar. Efnislega eru siðareglurnar sjálfar ágætlega greinargóðar. Þær gefa ekki tilefni til sérstakrar gagnrýni. Formlega eru þær settar með ályktun Alþingis. Forsætisnefnd setur aftur á móti reglur um málsmeðferð með stoð í þingsályktuninni.  Það sem fyrst og fremst hefur leitt til þess klúðurs sem við blasir eru flóknar og óskýrar málsmeðferðarreglur og ógóð framkvæmd þeirra.“

Hin eiginlega siðanefnd

„Samkvæmt reglunum er forsætisnefnd Alþingis hin raunverulega siðanefnd, eins konar aðalsiðanefnd. Hún ákveður hvort tilefni er til að taka mál til meðferðar. Hún leitar álits ráðgefandi siðanefndar telji hún efni standa til þess. Að því fengnu tekur forsætisnefndin ákvörðun um hvort um siðferðisbrot er að ræða óbundin af áliti ráðgjafanefndarinnar,“

segir Þorsteinn og bendir á að forsætisnefndin geti veitt þingmanni lausn frá áfellisdómi, telji hún brotið vera minniháttar. Því er ekki loku fyrir það skotið að forsætisnefnd, hvar Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis fer með alræðisvald, „náði“ Þórhildi Sunnu fyrir ummæli sín um Ásmund Friðriksson:

„Kjarni málsins er sá að forsætisnefndin fer með ákæruvald um siðferðileg álitamál. Hún fer svo sjálf  með æðsta dómsvaldið að fengnu ráðgefandi áliti siðanefndar. Og loks veitir hún sakaruppgjöf þegar það á við. Þetta eru ekki góðar málsmeðferðarreglur,“

segir Þorsteinn og nefnir að forsætisnefnd verði ávallt bullandi vanhæf til að fjalla um siðferðisleg álitamál:

„Aukinheldur er forsætisnefndin ekki góð siðanefnd; burtséð frá því hverjir sitja í henni á hverjum tíma. Samkvæmt lögum um þingsköp fer forseti Alþingis með alræðisvald í nefndinni ef ekki er samstaða. Þingsályktun um siðareglur breytir ekki þessu skýra ákvæði í lögum.

Þar að auki er forsætisnefndin í eðli sínu pólitísk nefnd og augljóslega vanhæf í flestum tilvikum þar sem spurningar um siðferði einstakra þingmanna vakna. Þingmenn geta ekki verið pólitískir andstæðingar eina stundina en óháðir og óvilhallir dómarar um siðferðileg mál hvers annars þá næstu. Vel mætti flokka það undir ruglandi með tilvísun í meistara Þórberg.“

Steingrímur vanhæfur

Þorsteinn segir að mál Þórhildar sé gott dæmi um vanhæfi forsætisnefndar í einstaka málum. Hann segist ekki taka afstöðu til niðurstöðu forsætisnefndar um að Ásmundur Friðriksson hefði ekki gerst brotlegur við siðareglur né lög:

„Klípan er bara sú að forseti Alþingis er vanhæfur í þessu tilviki. Forseti Alþingis ber lögum samkvæmt ábyrgð á rekstri Alþings og stjórnsýslu þess. Þegar forseti Alþingis tók þessa ákvörðun var nauðsynlegt að hafa í huga að gagnstæð niðurstaða hefði réttilega vakið þá spurningu hvort hann og forverar hans hafi sinnt lögbundnu ábyrgðar- og eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti. Niðurstaðan getur verið rétt en hún er marklaus af því að hún er tekin af vanhæfum aðila.

Niðurstaðan í akstursmálinu sýnist vera tengd við málið gegn Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Fyrir þá sök hefði spurningin um hæfi forsætisnefndar átt að koma upp áður en haldið var af stað með það. Vanhæfisspurningin hlýtur því óhjákvæmilega að koma upp nú þegar ráðgefandi álit siðanefndar liggur fyrir og málið er aftur komið á borð forsætisnefndar.Ekki er þó sjálfgefið að vanhæfi forsætisnefndar kippi fótunum undan efnislegri niðurstöðu ráðgefandi siðanefndar.“

Klaufaskapur Steingríms í Klaustursmálinu

Þorsteinn rekur hvernig Steingrímur J. Sigfússon gerði sig vanhæfan í Klaustursmálinu með því að tjá sig um það áður en forsætisnefnd gæti tekið það fyrir og hafi þar með brotið málsmeðferðarkerfið niður áður en reyndi á það:

„Forseti Alþingis kvað sem sagt upp dóma  áður en málið var sett í formlega meðferð samkvæmt settum reglum, sem hann sjálfur ber ábyrgð á að framkvæma réttilega. Þingforsetinn gerði sig ekki aðeins vanhæfan heldur lamaði hann kerfið í raun með þessu frumhlaupi.“

Telur Þorsteinn að Steingrímur hefði átt að tjá skoðun sína á Klaustursmálinu úr ræðustól Alþingis, en ekki forsetastóli, þar með hefði skoðunin verið persónuleg, en ekki þingforsetans Steingríms:

„Hann hefði orðið vanhæfur eftir sem áður. Það var í góðu lagi. Hitt er ámælisvert að þingforseti skyldi ekki virða málsmeðferðarreglurnar. Þetta atvik sýnir vel hversu óskynsamleg skipan mála það er að hafa forsætisnefndina sem aðalsiðanefnd.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bjarni lukkulegur með gleðitíðindin og spáir því að vextir lækki frekar í nóvember – „Planið okkar hefur gengið upp“

Bjarni lukkulegur með gleðitíðindin og spáir því að vextir lækki frekar í nóvember – „Planið okkar hefur gengið upp“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón segist ekki vera rasisti – „Ég kippi mér ekki upp við svona bull og merkimiða“

Jón segist ekki vera rasisti – „Ég kippi mér ekki upp við svona bull og merkimiða“