Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, fer nú mikinn á Facebook um Sjálfstæðisflokkinn, líkt og Eyjan greindi frá í gær. Hann berst einnig með Orkunni okkar gegn þriðja orkupakkanum.
Útlit flokksforystunnar er honum ofarlega í huga, en hann taldi í gær að fólk með sjónvarpsvænt útlit veldist helst þangað, án þess að innistæða væri fyrir því.
Þá sagði hann Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara og þingmann flokksins, vera „sætan krakka“. Hann bætti við í gær að pistill hans hefði ekki snúist um persónur, en í millitíðinni hafði Áslaug sjálf tjáð sig á samfélagsmiðlum þar sem hún sagði áhuga Ragnars á sér vera óeðlilegan, að vera gramsa í gömlum myndum af henni á Facebook.
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Ragnar gerði útlit Áslaugar að umtalsefni, en árið 2017 virtist mynd af henni með blautt hár fara fyrir brjóstið á honum.
Nú skrifar Ragnar í gærkvöldi að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir og Áslaugu skorti reynslu, bæði í starfi og í lífinu, til að vera í þeirri stöðu sem þær eru. Þær geti orðið gjaldgengar eftir 20 ár, enda séu þær efnilegar. Þá segir hann einnig að þær hafi ekki verið kosnar á grundvelli pólitísks styrks, heldur kynferðis og væntanlega útlits, samanber pistilinn í gær:
„Þær eru efnilegar, varaformaður og ritari Flokksins. Þeir sem sjá mest glansmyndir af sjálfum sér (td. ummæli jáfólks) hafa bara gott af að sjá hvernig aðrir sjá hlutina. Það er sorglegt að sjá kornungt efnilegt fólk reisa sér hurðarás um öxl, þrá æðsta frama án þess að hafa næga starfs- og lífsreynslu. Eftir 20 ár er líklegt að þær hafi öðlast hana. Vegna þessa óþols eyðileggja flokkarnir efnilegt fólk sem gæti orðið þungavigtarfólk með tímanum, með því að veita þeim ótímabæran frama út á eitthvað annað en pólitískan styrk, td. kynferði eða annað. Opinberar persónur verða að þola umræðu og gagnrýni. Sjstfl. hefur ekki beinlínis verið heppinn í sínum ,,kvennamálum” í seinni tíð, er það ?“
Ragnar nefnir engin nöfn, en Hanna Birna Kristjánsdóttir hætti sem ráðherra eftir lekamálið og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, gekk til liðs við Viðreisn. Þá þurfti Sigríður Á. Andersen að stíga til hliðar sem dómsmálaráðherra eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu.
Sjá einnig: Ragnar gerði það aftur:„Glæsilegasta konan er varaformaður og sætasti krakkinn ritari“
Sjá einnig: Áslaug Arna um „óeðlilegan áhuga Ragnars:„Hvað næst? #ekkiveraragnar“
Sjá einnig: Ragnar útskýrir ummæli sín:„Nokkrar viðkvæmar sálir hafa hrokkið í varnarstöðu“