„Ég fór í Arion banka um daginn til að taka út pening. Ég var ekki alveg nýbúin að kíkja á heimabankann, mundi ekki upp á krónu hvað var inni á reikningnum, svo ég segi ,,hvað er mikið inni á reikningnum?“ Svarið sem ég fékk gerði mig orðlausa, þið eruð kannski betur inni í gjaldskrá bankanna en mér fannst þetta alveg út í hött. ,,Það kostar x(man ekki alveg en um 200 kr) ef ég á að segja þér hvað er inni á reikningnum.“
Svo hljóðar stöðufærsla konu sem greinir frá ferð sinni í Arion banka á dögunum, inni á Facebooksíðunni „Vertu á verði-eftirlit með verðlagi“ sem telur yfir 2000 manns.
Hún kveðst hafa tekið út pening hjá gjaldkera og spurt í leiðinni hver staðan væri á reikningum eftir úttektina, en var þá rukkuð um 195 krónur.
Samkvæmt verðskrá Arion banka eru rukkaðar 195 krónur fyrir „helstu aðgerðir í útibúi eða þjónustuveri.“ Verðskráin tók gildi þann 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins.
Í eldri verðskrá Arion banka var ekkert slíkt þjónustugjald, heldur voru einungis rukkaðar 75 krónur fyrir að gefa upp stöðu inni á reikningi í gegnum síma, og útprentun yfirlits kostaði 120 krónur, en hvergi var tilgreint hvað það kostaði að gefa upp slíkar upplýsingar á staðnum.
Konan sem um ræðir ákvað á endanum að sleppa því að fá upplýsingar um stöðuna á reikningnum:
„Ég ákvað einmitt bara ekki að fá að vita þetta, fannst út í hött að borga fyrir að hún segði mér hvað stæði á skjánum fyrir framan hana.“
Þjónustugjöld bankanna hafa hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs þrátt fyrir mikla hagræðingu í bankakerfinu á síðustu árum. Þetta kemur fram í úttekt verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands sem Eyjan greindi frá í nóvember.
Í þeirri úttekt var Arion banki dýrastur og þar kom fram að Arion banki hafði tekið upp fast afgreiðslugjald upp á 195 krónur fyrir aðgerðir sem framkvæmdar voru af þjónustufulltrúa.
Verðskrár bankanna voru einnig gagnrýndar í úttekt ASÍ, þar sem starfsfólk bankanna skildi þær ekki sjálft og þótti þær ógagnsæjar og flóknar.
Sjá einnig: Verðlagseftirlit ASÍ:Þjónustugjöld bankanna hækka langt umfram verðlag – Arion dýrastur í flestum tilfellum