Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og þaulsetnasti forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins, segir í leiðara dagsins að endalok Sjálfstæðisflokksins sé ekki endilega „harmsefni“.
Hann minnist á orð heilbrigðisráðherra, um að þungunarrofsfrumvarpið sem samþykkt var í gær, hafi komið úr ranni Sjálfstæðisflokksins, en það virðist ekki vera Davíð að skapi, þótt hann segi fátt koma sér á óvart núorðið.
Svandís sagði á Alþingi í gær að frumvarpið hefði upphaflega komið frá Kristjáni Þór Júlíussyni, þáverandi heilbrigðisráðherra:
„Þegar ég kom inn í heilbrigðisráðuneytið lá þar fyrir skýrsla sem var beðið um af hæstvirtum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þá heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, þar sem frumvarp af þessu tagi var lagt til með mjög eindregnum og faglegum hætti. Þessi skýrsla lá á borðinu þegar ég kom að í ráðuneytinu og mér þótti einboðið að færa niðurstöðu nefndarinnar til Alþingis vegna þess að það er Alþingi sem á að taka ákvörðun um þessa hluti en ekki ráðherrann einn og sjálfur.“
Þess má geta að Kristján Þór var í nokkurri andstöðu við þingflokk sinn í gær, þar sem hann samþykkti frumvarpið, líkt og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, dómsmálaráðherra var erlendis, en sagðist styðja málið einnig. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, var andvígur frumvarpinu.
Sjá nánar: Meirihluti landsmanna styður þungunarrofsfrumvarpið – Hvernig kaus þinn þingmaður ?
Davíð segist nokkuð hissa á því að slíkt frumvarp hafi komið frá Sjálfstæðisflokknum, en aftur á móti komi fátt á óvart núorðið:
„Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að fóstureyðingarlögin, sem eru önnur af tveimur afmælisgjöfum flokksforystu til fólksins síns, séu komin úr Valhöll, herbúðum þess flokks. Það vekur nokkra undrun, þótt viðurkenna megi að það sé fátt sem veki undrun nú orðið. Uppfinningamenn hafa lengi reynt að finna upp eilífðarvélina og ekki tekist. Stjórnmálaflokkar eru ekki eilífir og hafi þeir ekki lengur fyrir neinu að berjast styttist í tilverunni og þýðir ekki að fárast yfir því. Enda þarf það í sjálfu sér ekki endilega að vera harmsefni.“
Davíð hefur verið hallur undir boðskap Miðflokksins og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar undanfarin misseri og ár, meðan hann hefur margsinnis gagnrýnt Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Benediktsson, allt frá því að Icesave var og hét.
Davíð er andstæðingur þriðja orkupakkans og virðist fjarlægjast Sjálfstæðisflokkinn með hverjum leiðara og Reykjavíkurbréfi. Þess má geta að einn forvera Davíðs á Morgunblaðinu, Styrmir Gunnarsson, hefur skrifað um að verði orkupakkinn samþykktur, gæti það leitt til klofnunar Sjálfstæðisflokksins, sem hann síðar dró aðeins í land með.
Ljóst er að þungunarfrumvarpið er Sjálfstæðisflokknum erfitt, en kannski ekki jafn erfitt og orkupakkinn gæti orðið.
Miðað við slík skrif hjá Davíð gagnvart þungunarrofsfrumvarpinu, gætu einhverjir spáð því að hann segði sig úr Sjálfstæðisflokknum þegar orkupakkinn verður samþykktur, en tíminn einn mun leiða það í ljós.