Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir er á lista Sunday Times yfir 100 ríkustu menn Bretlandseyja. Er hann metinn á 1.7 milljarða punda, eða um 276 milljarða króna, sem er um þriðjungur af heildartekjum íslenska ríkisins, sem námu 840 milljörðum króna í fyrra. RÚV greinir frá.
Bakkavararbræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundsson komast á lista Sunday Times yfir 1000 ríkustu menn Bretlands, en þeirra eignir eru metnar á 560 milljónir punda, eða um 90 milljarða króna.
Ríkustu menn Bretlands eru samkvæmt listanum bræðurnir Srichand og Gopichand Hinduja sem eiga og reka The Hinduja Group samsteypunnar, sem er með höfuðstöðvar í Bretlandi.
Í öðru sæti eru bræðurnir David og Simon Reuben en Íslandsvinurinn Jim Ratcliffe, sem keypt hefur fjölda jarðareigna hér á landi, vermir þriðja sætið.
Auðævi þeirra sem komast á listann eru metin út frá eignum sem vitað sé um, svo sem landareignir, fasteignir, listaverk og hlutabréf, en inneign á bankareikningum sé ekki meðtalin.