Þór Saari, hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður, er nú kominn með nýja gráðu í hús, en hann lauk pungaprófinu í apríl. Þór er vanur sjómennskunni, en hann var í tíu til sjós áður en hann varð þingmaður árið 2009, en þá settist hann á þing eitt kjörtímabil fyrir Borgarahreyfinguna, síðar Hreyfinguna.
Þór, sem varð þjóðþekktur í búsáhaldabyltingunni, starfaði einnig sem hagfræðingur í New York, hjá Seðlabanka Íslands og Lánasýslu ríkisins, vann hjá Sameinuðu þjóðunum og kenndi í framhaldsskóla. Eftir að þingmennskunni lauk, stóð Þór á tímamótum, atvinnulaus, og sagði í viðtölum að það væri ekki auðvelt fyrir fyrrverandi þingmenn að fá vinnu.
Hann gekk til liðs við Pírata árið 2016 og gaf kost á sér í prófkjöri, en fékk ekki brautargengi. Yfirgaf hann flokkinn síðan árið 2018 þar sem hann taldi gengið framhjá sér við skipun fulltrúa í bankaráð Seðlabanka Íslands.
En nú eru Þóri allir vegir færir á láði og fagnar hann á Facebook með orðunum: „Þá er Pungaprófið komið. Skipper Þór, það er nú eitthvað. Nú er bara að fá sér viðeigandi kaskeiti og jakka með vínarbrauði á öxlunum.“