fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Þórarinn hraunar yfir „ruglingslega“ ríkisvæðingu Svandísar- „Vantar alla heildarsýn“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 8. maí 2019 13:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur og stjórnarmaður í Læknafélagi Íslands, finnur heilbrigðisstefnu stjórnavalda til ársins 2030, sem bíður samþykktar á Alþingi, flest til foráttu í grein sinni í Læknablaðinu í dag.

Þórarinn segir meðal annars:

„Heilbrigðisstefnan til 2030 sem nú bíður samþykkis Alþingis er því miður ekki afrakstur faglegrar og nútímalegrar stefnumótunarvinnu sem sátt hefur náðst um í samfélaginu, heldur liður í að ríkisvæða heilbrigðisþjónustuna hratt og hljótt. Meðal annarra hafa félög lækna gagnrýnt stefnuna og vinnubrögðin við stefnumótunina harðlega.“

Skilyrðin ekki uppfyllt

Þórarinn útskýrir að hefðbundin stefnumótunarvinna fari eftir skýrri aðferðarfræði í fjórum þáttum; Gagnaöflun og stöðumati, greiningu gagna, tillögugerð um innleiðingu og mælanleg markmið og loks aðgerðaáætlun og eftirfylgni.

Þórarinn segir að þessu hafi ekki verið fylgt eftir…:

„Fyrir liggur að þessu ferli var alls ekki fylgt við gerð heilbrigðisstefnunnar. Á kynningarfundi í ráðuneytinu í október 2018 kom fram að gagnaöflun og stöðumat hefðu verið takmörkuð og tekið stuttan tíma. Algerlega var horft framhjá fyrri heilbrigðisáætlunum til 2000 og 2010, en rykið dustað af gömlum skýrslum um afmarkaða hluta heilbrigðiskerfisins. Heildstætt stöðumat fór ekki fram og ekki var fyllt í eyður þekkingar á núverandi stöðu sem sárlega hefði þurft að gera.Greining gagnanna var heldur aldrei framkvæmd og tillögur um innleiðingu, markmið og mælikvarða eru fáar í stefnunni og tilviljunarkenndar. Það er bagalegt því markmiðssetning og mælikvarðar eru hornsteinar árangursmats stefnumótunarvinnu,“

…og bendir á að engin aðgerðaráætlun sé í þeirri tillögu sem nú liggi fyrir:

„Í nokkrum tilfellum er þó búið að setja fram markmið sem eiga að nást fyrir árið 2030. Með því að slíkt er gert tilviljunarkennt er forgangsröðun fjármuna ákveðin án þess að hugað sé að því meta áhrifin á kerfið heildstætt.Texti tillögunnar sjálfrar er stuttaralegur og í punktaformi og í þetta plagg vantar stóra þætti. Það gerir stefnuna ekki bara ruglingslega heldur í raun ónothæfa því í hana vantar alla heildarsýn. Nær hefði verið að tala um stefnumótun fyrir hinn ríkisrekna hluta heilbrigðiskerfisins því nánast eingöngu er fjallað um þann hluta heilbrigðiskerfisins í tillögunni þótt farið sé um víðan völl í greinargerðinni.“

Þá nefnir Þórarinn að ábendingar fagfólks og leikmanna á fundum, á Heilbrigðisþingi og í samráðsgáttinni hafi verið virtar að vettugi.

Það sem vantar

„En veikleikar stefnunnar opinberast fyrst og fremst í því sem í hana vantar. Til dæmis er nær ekkert fjallað um endurhæfingu, öldrunarþjónustu, sjúkraflutninga, lýðheilsu, forvarnir, hjúkrunarheimili og geðheilbrigðismál. Betri umfjöllun skortir um nýsköpun, framþróun, tækniframfarir og mat á gæðum og árangri. Velferð starfsmanna, kulnun í starfi, jafnréttismálum og símenntun eru gerð lítil skil og ekkert er þar varðandi lífsstílssjúkdóma og framtíðarsjúkdóma sem heilbrigðiskerfi komandi ára mun standa og falla með. Framtíðarsýnin er lítil sem engin en meira púðri eytt í hvernig reka á ríkisstofnanirnar í kerfinu. Sem dæmi var ekki haft samráð við sveitarfélög og stofnanir sem reka hjúkrunarheimili. Samt er umtalaðasti vandi sjúkrahúsanna fráflæðisvandi og skortur á hjúkrunarrýmum. Hvernig má þá vera að akkúrat þetta var haft útundan í stefnumótuninni?“

spyr Þórarinn og telur að miðað við stefnuna verði ýmiskonar þjónusta sem veitt er utan sjúkrahúsa, eins og Rauða krossins og SÁÁ, horfin innan fárra ára:

„Einnig vantar að mestu umfjöllun um stóran, vaxandi og mikilvægan hluta kerfisins okkar en það er heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa. Þar má nefna sem dæmi rekstur sjúkraþjálfara, starfsemi Rauða krossins, SÁÁ, Krabbameinsfélagsins, Heilsustofnunar NLFÍ og Reykjalundar – aðila sem lyft hafa grettistaki fyrir heilbrigðiskerfið síðastliðna áratugi en má ætla að verði horfnir af vettvangi árið 2030, í núverandi mynd, ef marka má heilbrigðisstefnuna.“

Framtíðin í húfi

Þórarinn segir að heilbrigðiskerfið þurfi að vera aðgengilegt öllum, og gæðin framúrskarandi. Heildstæð langtímastefna sé forsenda slíkrar þróunar:

„Sú brotakennda stefna um ríkisrekna heilbrigðiskerfið sem nú liggur fyrir Alþingi er ljósárum frá því að vera slíkt plagg. Ég hvet þingmenn til að hafna núverandi plaggi en fela ráðuneytinu að hefja vandaða faglega vinnu við mótun heilbrigðisstefnu allra landsmanna, leita til þess aðstoðar fagmanna í stefnumótun og leggja þannig fjármuni til verkefnisins að unnt sé að vinna það af ítrustu fagmennsku. Framtíð heilbrigðiskerfisins okkar er í húfi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá
Eyjan
Í gær

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“