Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að ráðist verði í tilraunaverkefni fyrir komandi haust til að auka öryggi gangandi vegfarenda í umferðinni með nýrri tækni við gangbrautir borgarinnar var samþykkt samhljóða á fundi borgarstjórnar í gær, samkvæmt tilkynningu,
Ólafur Kr. Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og flutningsmaður tillögunnar fagnar samþykkt tillögunnar, sem muni auka umferðaröryggi:
„Þetta er mjög mikilvægt í ljósi þess að koma í veg fyrir alvarleg umferðarslys. Með þessari tækni er hægt að gera gangandi vegfarendur sýnilegri en áður þegar þeir fara yfir gangbrautir. Við höfum orðið vitni að hræðilegum slysum, t.d. á Hringbraut núna nýverið. Þess vegna er mjög mikilvægt að bæta öryggi gangandi vegfarenda sem ganga á gangbrautum yfir umferðaræðar,“
segir Ólafur.
Tillagan er þáttur í snjallvæðingu Reykjavíkurborgar með umferðaröryggi að leiðarljósi fyrir alla vegfarendur, en hún gerir ráð fyrir að valdir verði fimm staðir þar sem sett verði upp ný gerð gangbrautarlýsingar og merkinga.
„Um er að ræða tæknibúnað sem skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir þá LED götulýsingu, sem sett er upp þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Einnig kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð. Þessi tækni er þekkt erlendis og gagnast vel í skammdeginu í nyrstu höfuðborginni; Reykjavík. Áætlaður kostnaður við búnaðinn er innan við tíu milljónir króna fyrir alls fimm staði í borginni, en lagt er til að skipulagssviði verði falið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum. Ef vel tekst til gæti þetta verið upphafið að stórátaki til að auka öryggi óvarinna vegfarenda í Reykjavík verulega og um leið að stuðla að nútímavæðingu borgarinnar í þessum efnum,“
segir í tillögu Sjálfstæðisflokksins.