Fyrstu rafmagnsbílarnir voru nýskráðir hér á landi árið 2010. Síðan hefur þeim fjölgað hratt og hafa nú samtals 1.893 rafmagnsbílar verið skráðir, samkvæmt frétt á vef Félags Íslenskra Bifreiðareigenda sem vísar í gögn úr Árbók Bílgreinasambandsins.
Þá voru alls 1.333 metanbílar skráðir á sama tímabili, en þeir komu fyrst hingað til lands árið 2009. Árið 2014 komu svokallaðir tengiltvinnbílar á markað og hefur aukningin verið mest í slíkum bílum, er varðar nýskráningar.
Alls var 691 tengiltvinnbíll skráður árið 2016 og 1.380 bílar árið eftir, sem er 200% fjölgun milli ára. Alls eru 2.957 slíkir bílar hér á landi.
„Síðastliðin ár hafa sífellt fleiri bílaframleiðendur einbeitt sér að framleiðslu rafmagns- og tengiltvinnbíla, úrvalið hefur aukist mikið og er viðbúið að það muni aukast enn frekar á komandi árum. Það sem helst ræður úrslitum um fjárfestingu neytenda í rafbílum er drægni og verð bílsins. Með aukinni framleiðslu mun verð líklega lækka og með frekari tækniþróun eykst drægni,“
segir í frétt FÍB.
Meðalaldur bílaflota landsins hefur farið lækkandi undanfarin ár, en hækkaði lítillega á síðasta ári. Árið 2017 var meðalaldurinn 12.3 ár, en hækkaði upp í 12.4 ár í fyrra, en miðað er við alla skráða fólksbíla, hvort sem þeir eru í notkun eða ekki.
Meðalaldurinn er 9.91 ár þegar aðeins eru taldir skráðir fólksbílar í notkun.
Mesta fjölgunin var í flokki bifreiða sem var yfir 20 ára, en þeir voru samtals 40. 594 talsins, sem er 24 prósenta fjölgun frá árinu 2017.
Fjölgunin í yngsta aldursflokknum, 0-5 ára, var 12.5 prósent og eru þeir bílar alls 89.900 talsins.