fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Össur hneykslaður á orkupakkaorðbragðinu og kemur sjálfstæðiskonu til varnar

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 7. maí 2019 23:21

Össur Skarphéðinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra Samfylkingarinnar, tekur upp hanskann fyrir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann utanríkismálanefndar, á Facebook í kvöld. Áslaug, sem tók til máls um þriðja orkupakkann í umræðum um störf þingsins í dag, sagði það ekki koma sér á óvart að eftir því sem fólk kynnti sér málið betur, fjölgaði þeim er væru jákvæðir í garð orkupakkans, líkt og skoðanakönnun Fréttablaðsins hefði leitt í ljós.

Áslaug fékk bágt fyrir þessi ummæli sín í umræðuhópnum Orkan okkar, þar sem andstæðingar þriðja orkupakkans koma gjarnan saman. Hefur hópurinn einnig verið gagnrýndur fyrir ritskoðun og að útiloka þá sem eru á öndverðum meiði.

Össur kom hinsvegar Áslaugu til varnar í kvöld, er honum blöskraði ummælin sem látin voru falla í hennar garð:

„Ung og áreiðanlega efnileg þingkona leyfði sér að hafa skoðanir á orkupakkaræflinum á þingi undir dagskrárlið sem Þráinn Bertelsson kallaði einu sinni “hálftími fyrir hálfvita.” Af tilviljun horfði ég á ræðuna. Hún var flutt af kurteisi sem ég náði því miður aldrei að tileinka mér. Í kjölfarið slæddist ég inn á “Orkan okkar” þar sem einhver vitsmunavera hafði deilt frétt af ræðunni. Það var lífreynsla.

Einkunnirnar sem henni voru gefnar af hinum málefnalegu andstæðingum orkupakkaræfilsins voru meðal annars þessar: Dramb, hroki, landráðafólk, ómerkileg, ósmekkleg, forhert, ræningjar, grey, skítalykt, skítadreifarar, “greyið stígur ekki i vitið”, lygi, lágkúra, og kona kallar kynsystur sína “litlu stelpuna sem talar einsog henni er sagt að gera”.

Mega menn ekki hafa skoðanir? Er það ekki í lagi að fara eftir sannfæringu sinni og styðja hana rökum? Eru andstæðingar orkupakkans á móti því að fólk fari eftir fyrirmælum stjórnarskrárinnar og lúti sannfæringu sinni?

Annars allt gott að frétta úr Vesturbænum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt