Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu á fundi utanríkisráðherra ráðsins sem lauk fyrr í dag í Rovaniemi í Finnlandi og tók Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við formennskukeflinu af Timo Soini, finnskum starfsbróður sínum. Ráðherrafundurinn markaði lok tveggja ára formennsku Finnlands í ráðinu. Á fundinum var farið yfir starf Norðurskautsráðsins undanfarin tvö ár og lagður grunnur að verkefnum næstu tveggja ára í formennskutíð Íslands.
Utanríkisráðherra kynnti á fundinum formennskuáætlun Íslands undir heitinu „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“. Þar er lögð megináhersla á þrjú málefnasvið: málefni hafsins, loftslagsmál og grænar orkulausnir, og fólkið og samfélög á norðurslóðum. Einnig verður haldið áfram vinnu við að styrkja innra starf Norðurskautsráðsins og kynna starf þess út á við. Þá verður jafnframt unnið að þeim tæplega eitt hundrað verkefnum sem vinnuhópar Norðurskautsráðsins sinna að jafnaði á sviði umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar.
Af einstökum verkefnum má nefna að Ísland hyggst beina sjónum sérstaklega að bláa lífhagkerfinu þar sem skoðað er hvernig nýta megi líftækni og nýsköpun til að stórauka verðmæti sjávarafurða og draga úr lífrænum úrgangi frá vinnslu sjávarfangs. Einnig verður lögð sérstök áhersla á baráttu gegn plastmengun í höfunum auk þess sem áfram verður unnið að bættu öryggi sjófarenda í samstarfi við Strandgæsluráð norðurslóða sem Landhelgisgæslan leiðir næstu tvö árin. Ísland hyggst ennfremur halda áfram með verkefni sem miðar að því að leita grænna orkulausna fyrir einangruð norðurslóðasamfélög, auk þess að beita sér fyrir verðugum sessi jafnréttismála á vettvangi Norðurskautsráðsins og kynna íslenska aðferðafræði í forvörnum við áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna. Ísland mun einnig beita sér fyrir auknu samstarfi Norðurskautsráðsins við Efnahagsráð norðurslóða, en það mun einnig lúta íslenskri formennsku næstu tvö árin.
Í ræðu sinni lagði Guðlaugur Þór ríka áherslu á mikilvægi sjálfbærni og minnti á að henni verður ekki náð nema jafnvægi ríki milli umhverfisverndar, efnahagslegrar framþróunar og uppbyggingar samfélaga. „Hlutverk Norðurskautsráðsins hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú og athygli á málefnum norðurslóða aldrei meiri samhliða loftslagsbreytingum og sviptingum í alþjóðastjórnmálum. Það er því verðugt verkefni að taka við formennsku í Norðurskautsráðinu á þessum tímapunkti með samvinnu og sjálfbærni að leiðarljósi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Utanríkisráðherrar allra átta aðildarríkja Norðurskautsráðsins sóttu fundinn, en þau eru Bandaríkin, Kanada, Rússland og Norðurlöndin. Að auki sóttu fundinn forystufólk sex frumbyggjasamtaka sem eru fullir þátttakendur í starfsemi Norðurskautsráðsins og fulltrúar 39 áheyrnaraðila, en á meðal þeirra eru ríki eins og Kína, Frakkland, Indland,Þýskaland, Japan og Suður-Kóreu.
Utanríkisráðherra átti jafnframt nokkra tvíhliða fundi í Rovaniemi. Á fundi með Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, ræddu ráðherrarnir meðal annars formennskuskiptin í Norðurskautsráðinu og málefni Evrópuráðsins, sem Finnland er í formennsku fyrir. Þegar hefur verið greint frá fundi með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, en Guðlaugur Þór átti einnig fund með Sam Tan Chin Siong, fyrsta ráðherra í ríkisstjórn Singapúr þar sem rædd voru tvíhliða samskipti ríkjanna og málefni norðurslóða.
Formennskuáætlun Íslands á íslensku. Upplýsingasíða um formennsku Íslands á ensku.