Innleiðing þriðja orkupakkans hefur reynst stjórnarflokkunum erfitt, þar sem bakland Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og VG er sagt í mikilli andstöðu við þingflokkana. Styrmir Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og harður andstæðingur þriðja orkupakkans, virðist telja Framsóknarflokkinn líklegastan til að berjast gegn málinu á Alþingi, ef marka má skrif hans undanfarnar vikur, en hann virðist binda miklar vonir við að Framsóknarflokkurinn setji hnefann í ríkisstjórnarborðið.
Nú segir Styrmir allt loga stafnana á milli í grasrót Framsóknarflokksins vegna þriðja orkupakkans:
„Úr Framsóknarflokknum berast nú þær fréttir, að grasrótin þar sé að rísa upp gegn Orkupakka 3 ekki síður en í Sjálfstæðisflokknum. Einn virkur flokksmaður hefur lýst andrúmsloftinu innan flokksins á þann veg, að þar sé allt logandi vegna málsins. Þetta kemur ekki á óvart. Auðvitað er framsóknarmönnum ljósara en öðrum hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir fylgi flokksins, standi þingmenn hans að samþykkt orkupakkans á Alþingi á sama tíma og þingmenn Miðflokksins greiði atkvæði gegn.“
Styrmir túlkaði grein Sigurðar Inga Jóhannssonar í Kjarnanum í apríl á þann veg að hann hefði með henni fyrstur stjórnmálaflokka „skapað sér sérstöðu“ um málið, en þar sagði Sigurður Ingi að mistekist hefði að sannfæra þjóðina um að fyrirvararnir í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra væru nóg til að taka af allan vafa um að orkuauðlindir Íslands yrðu undir yfirráðum Íslendinga. Þá nefndi hann einnig að mikilvægt væri að leita sátta og niðurstöðu sem almenningur sætti sig við.
Spáði Styrmir því að Framsókn myndi beita sér fyrir frestun orkupakkans í þinginu.
Styrmir hafði áður sagt að það yrði með ólíkindum ef Framsókn hleypti málinu í gegn, þannig væru þeir að grafa sína eigin gröf gagnvart Miðflokknum:
„Hins vegar er með algerum ólíkindum, ef þingmenn Framsóknarflokksins ætla að hleypa þessu máli í gegn eins og ekkert hafi í skorizt. Þar með væru þeir að grafa sína eigin gröf. Miðflokkurinn er flokkur, sem klofnar út úr Framsóknarflokknum og er undir forystu fyrrverandi formanns og forsætisráðherra Framsóknarflokksins. Sá flokkur hefur tekið upp harða andstöðuvið orkupakkann. Það getur varla verið, að í þingflokki Framsóknar séu ekki einhverjir þingmenn, sem átti sig á því, að skipist mál á þennan veg nær Miðflokkurinn algerum undirtökum í baráttu þessara tveggja flokka um rótgróið fylgi Framsóknar í byggðum landsins. Þá segja sumir: þetta skiptir engu máli. Það er eftir sem áður meirihluti fyrir málinu á Alþingi með þingmönnum Samfylkingar og Viðreisnar. Ef málið yrði afgreitt á þann veg er augljóst að ríkisstjórnin væri fallin. Framsókn gæti ekki setið áfram í stjórn ef þannig yrði vaðið yfir hana og þingmenn hennar.“
Styrmir skrifaði í byrjun apríl að Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn stæðu í pólitísku einvígi, hvers örlög gæti ráðist af útkomu þriðja orkupakkans:
„Á milli Framsóknarflokksins og Miðflokksins, sem er undir forystu fyrrum formanns Framsóknarflokksins stendur yfir eins konar pólitískt einvígi. Það blasir ekki við, hvor flokkurinn fer með sigur af hólmi í því einvígi. En líklegt að sá þeirra, sem tapar visni smátt og smátt upp og hverfi af vettvangi. Sterkasta vopnið, sem Miðflokkurinn hefur fengið í þeirri baráttu, er Orkupakki 3, sem flokkurinn hefur snúizt gegn. Láti þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins málið fara í gegn með þeirra samþykki má vel vera að þar með hafi þeir grafið sína eigin gröf. Og í ljósi þess að í þingflokki Framsóknar hafa verið uppi sterkar efasemdir um málið á undanförnum mánuðum, er erfitt að trúa því, að þeir láti blekkjast af útúrsnúningum og sjónhverfingum þeirra, sem stjórna þessari ferð í þinginu.“
Miðstjórn Framsóknarflokksins ályktaði gegn orkupakkanum fyrir áramót, sagði orkumálin eiga að vera í höndum Íslendinga og ekki ætti að framselja ríkisvald til erlendra stofnana. Því skuli fá undanþágu frá innleiðingu orkupakkans.
„Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.“
Sjá einnig: Styrmir spáir að orkupakkanum verði frestað:„Þetta pólitíska frumkvæði Sigurðar Inga vekur vonir“
Sjá einnig: Styrmir:„Ætlar Framsókn virkilega að grafa sína eigin gröf?“
Sjá einnig: Styrmir:„Pólitískt einvígi milli Framsóknar og Miðflokks“