Már Guðmundsson, fráfarandi seðlabankastjóri, virðist bjartsýnn á vaxtalækkanir Seðlabankans samkvæmt grein hans í Morgunblaðinu í dag. Ekki verður tilkynnt um vaxtaákvörðun Seðlabankans fyrr en 22. maí, en ljóst er á orðum Más, að bankinn muni að öllum líkindum verða við kröfu lífskjarasamninganna, um vaxtalækkanir:
„Áföll og minni spenna í þjóðarbúskapnum skapa að öðru óbreyttu tilefni til lægri raunvaxta Seðlabankans og lækkun verðbólguvæntinga í framhaldi af kjarasamningum auka svigrúm til að sú lækkun eigi sér stað með lækkun nafnvaxta. Aðilar kjarasamninganna hafa væntingar um að þeir skapi forsendur fyrir lækkun vaxta. Eins og ég sagði í viðtölum fyrr í þessum mánuði eru töluverðar líkur á að þessar væntingar muni ganga eftir á næstunni.“
Már segir lítinn vafa um að verðbólguvæntingar til lengri tíma hafi lækkað og séu komnar mun nær markmiði bankans:
„Þannig var tíu ára verðbólguálag um 3,8% í byrjun mars en það lækkaði í um 3% dagana á eftir að kjarasamningar náðust og hafa í stórum dráttum haldist þar síðan. Það hefur hjálpað til í þessu sambandi að gengi krónunnar hefur ekki gefið eftir í framhaldi af losun aflandskróna og falli Wow í mars. Þar eiga inngrip Seðlabankans lítinn hlut að máli. Meira máli skiptir að aflandskrónur hafa farið hægt út og lækkun sérstakrar bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi í núll hefur unnið á móti. Þá hækkaði gengið í framhaldi af kjarasamningum og er nú svipað og þegar aflandskrónur voru losaðar.“
Már sendir verkalýðsforkólfum þó eilitla pillu í lokin, varðandi þá forsendu lífskjarasamninga að vextir lækki, en Már vill greinilega eiga síðasta orðið hvað það varðar:
„Ákvæði í kjarasamningum um að þeir geti losnað ef vextir eru yfir ákveðnum mörkum haustið 2020 eiga ekki og munu ekki breyta því þótt þau geti eitthvað flækt framkvæmd peningastefnunnar í framtíðinni. Það bíður betri tíma að ræða það frekar.“