Lögmaður fjögurra Klaustursþingmanna Miðflokksins, Reimar Pétursson, segir í bréfi sínu til Persónuverndar að ónefnd kona hafi átt erindi við Báru meðan hún tók upp drykkjurausið. Einnig segir að huldukonan hafi afhent Báru ljósan hlut og tekið við öðrum smágerðum hlut frá Báru.
Þetta sjáist á myndbandsupptökum frá barnum umrætt kvöld. Persónuvernd hafnaði kröfum Miðflokksmanna, um frekari gagnaöflun í málinu, en þar var krafist þessað sjá bankagögn og símanotkun Báru á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember 2018.
Konan sem um ræðir er Ragnheiður Erla Björnsdóttir, tónskáld og rithöfundur, en hún segir í samtali við Fréttablaðið að engin ástæða sé til að gera samskipti þeirra tortryggileg, því hún hafi haldið á skopparakringlu:
„Ég var með litla skopparakringlu. Þeir segja að það sé vafasamt. Ég myndi ekki segja að skopparakringla væri vafasöm.“
Þá segir Ragnheiður að munurinn sem hún hafi haldið á væri líklega fartölvan hennar, eða ljóðabók.
„Ég rétti henni ekki neitt. Ég knúsaði hana og fór út eftir að hún sagði mér að hún væri upptekin.“
Ragnheiður segist hafa þekkt Báru frá 14 ára aldri og viljað heilsa upp á hana, en hún hafi verið á leið á æfingu hjá Rauða skáldahúsinu, sömu æfingu og Bára sjálf ætlaði að fara á, áður en hún kom við á Klaustri bar:
„Eftir æfinguna er að labba aftur heim, þá sé ég Sigmund Davíð inn á Klaustri með hinum þingmönnunum. Maður sér þetta ekki í öðrum löndum. Það var fyllerísbragur yfir þeim, hvernig þau sátu og báru sig.“
„Þau eru að reyna að afvegaleiða athyglina af því sem skiptir máli, sem er hversu óviðeigandi og óafsakandi hegðun þeirra var í garð þeirra sem þau töluðu um. Hver einasta atlaga sem þau heyja að Báru er annar smánarblettur á stjórnmálaferil þeirra. Þegar þau ráðast á Báru þá eru þau að ráðast á þjóðina,“
segir Ragnheiður við Fréttablaðið, en neitar því að hún sé að reyna að „knésetja“ Miðflokkinn:
„Ég hef betri hluti að gera en að hugsa um rússíbanalíf Sigmundar Davíðs. Bára er öryrki og þau eru að níðast á henni. Þau eru að níðast á manneskju sem þarf á orku sinni að halda til að hugsa um heilsu sína, þegar þau ættu að vera á þingi og hugsa um hag fólksins. Það vita allir sem þekkja einhvern sem er að kljást við sjúkdóm, að það er ekki hægt að standa í þessu í langan tíma. Framkoma þeirra er tilgangslaus orkusuga.“