fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Sólveig brjáluð út í Davíð og telur verkalýðshreyfinguna verða að vera „herskáa“ og  „hættulega“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 29. apríl 2019 09:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að verkalýðshreyfingin þarf að vera „alvöru“ hreyfing; herská hreyfing vinnandi fólks sem getur og mun beita sér af fullum pólitískum krafti og sýna með því þeim sem fara með völd svo ekki verður um villst að hún er „hættuleg“, mjög meðvituð um völd sín og tilbúin til að gera margt og mikið til að koma í veg fyrir að and-lýðræðislegar skemmdarverkaákvarðanir þeirra sem vinna fyrir forréttindahópa nái að brjóta niður það sem upp hefur verið byggt vegna vinnu og baráttu vinnuaflsins. Hugsið ykkur ef komið hefði verið í veg fyrir þennan glæp nýfrjálshyggjunnar.“

Svo skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er hún deilir pistli Guðmundar Gunnarssonar, fyrrverandi formanns Rafiðnaðarsambandsins, um félagslega húsnæðiskerfið sem birtur er á vef Stundarinnar. Þar segir hann að félagslega húsnæðiskerfinu hafi verið „slátrað“ í einkavæddri aðgerð  ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar árið 1995, þar sem Húsnæðisstofnun var lögð niður, Íbúðalánasjóður stofnaður og niðurgreiðslur ríkisins fóru í gegnum vaxtabótakerfið:

„Fyrri lánveitingum í félagslegum tilgangi var hætt og öll lánastarfsemi Byggingasjóðs verkamanna var aflögð. Það þýddi að þeir sem voru í félagslega kerfinu voru allt í einu komnir inn í almenna séreignarkerfið. Þeim var gert að taka lán á sömu kjörum og þeir sem höfðu meira á milli handanna og um leið að keppa við aðra um takmarkað magn leiguíbúða. Þessi pólitíska ákvörðun gerði það að verkum að eftirspurn eftir íbúðum til kaups og leigu á almenna markaðnum jókst margfalt á einni nóttu. Þegar eftirspurnin varð síðan mun meiri en framboðið eftir hrunið, vegna samdráttar í byggingu íbúða árum saman og svo ferðamannasprengju, skapaðist það neyðarástand sem ríkt hefur undanfarin áratug og bitnar fyrst og síðast á fátækustu íbúum þessa lands,“

skrifar Guðmundur.

Hugið ykkur

„Hugsið ykkur ef komið hefði verið í veg fyrir þennan glæp nýfrjálshyggjunnar; hugsið ykkur ef við byggjum við manneskjulega nálgun á húsnæðismál, en hefðum ekki verið leidd inn á ógæfubraut eitraðrar hugmyndafræði?Hugsið ykkur ef að hreyfingin hefði getað verið það sem hún á að vera; risavaxið fyrirbæri fjöldans, fær um að senda svo skýr skilaboð að spillt stjórnmálafólk þori einfaldlega ekki að fremja samfélagslega glæpi?“

spyr Sólveig Anna.

Í pistli Guðmundar er tekið fram að samkvæmt áliti sérfræðings Seðlabankans í  Rannsóknarskýrslu Alþingis í kjölfar efnahagshrunsins 2008, hafi þessi lagabreyting er varðaði félagslega húsnæðiskerfið verið ein af verstu hagstjórnarmistökum í þingsögu landsins. Sem og að ríkisstjórnir Davíðs og Halldórs hafi margoft verið varaðar við, en þeir kumpánar hafi ávallt látið það sem vind um eyru þjóta.

Um það skrifar Sólveig Anna:

„(Hugsið ykkur að Davíð Oddson starfi sem ritstjóri í skjóli forherts auðvalds og sendi frá sér ömurlegan og mannfjandsamlegan áróður á hverjum degi eins og ekkert sé?)“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt