Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, skrifar grein á vef Kjarnans í dag, sem er svargrein við grein Guðmundar Andra Thorssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, vegna þriðja orkupakkans. Sú grein var svargrein við grein Kára í Fréttablaðinu.
Grein Kára er þó stíluð á Örnólf Thorsson, sem er bróðir Guðmundar, því Kára fannst réttara að:
„…senda orð mín til þín og biðja þig að vefja þau inn í bómull og flytja þau þannig til hans. Guðmundur Andri er nefnilega í Samfylkingunni og mér skilst að það sé ekki réttlátt að leggja meira á mann en það og alls ekki bréf af þessari gerð.“
Kári hafði amast við í fyrri grein sinni að eina markmið Landsvirkjunar væri að hámarka verðið á rafmagni og lagning sæstrengs væri ein leið til þess. Guðmundur Andri sagði það ekki vera áhyggjuefni, heldur fagnaði því að Landsvirkjun fengi arð af slíkri orkusölu, í stað mengandi iðnaðar eins og álbræðslna og kísilverksmiðja. Þess skal getið að engin áform eru um slíkan sæstreng samkvæmt utanríkisráðherra og ef svo færi, yrði Alþingi að samþykkja þá aðgerð sérstaklega, samkvæmt þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu þriðja orkupakkans.
Kári telur það þó ganga gegn almannahagsmunum ef orkan yrði seld um sæstreng:
„a) Ef við seldum rafmagn til Evrópu í gegnum sæstreng yrðum við samkvæmt reglum EES að verðleggja það eins við báða enda. Þar af leiðandi myndi verð á rafmagni hækka mikið á Íslandi og taka frá íslenskum atvinnuvegum það forskot sem felst í ódýrum aðgangi að vistvænni orku.
b) Ég held að það eigi að vera okkur kappsmál að nýta raforkuna okkar hér heima til þess að búa til vörur og rækta jurtir og geyma gögn. Við eigum ekki að sætta okkur við að láta aðra hirða virðisaukann sem í því felst.
c) Það er nokkuð víst að innan skamms muni krafan um að minnka mengun við alls konar framleiðslu gera það að verkum að það þætti nokkur fengur að því að fá að sinna henni á landi þar sem vistvæna orkan er aðgengilegri en í flestum öðrum löndum. Þess vegna eigum við ekki að veita henni úr landi heldur nýta hana sem okkar sérstæði til þess að búa til verðmæti hér, ekki annars staðar. d. Það er líklegt að sæstrengur myndi kalla á enn meiri virkjanavafstur og þykir mörgum nóg vegið að íslenskri náttúru með því sem komið er.“
Kári skilgreinir rökræðu sína og Guðmundar Andra sem fjölskylduerjur, sem einkennist af pirringi og nöldri, frekar en raunverulegum ágreiningi.
Guðmundur Andri hafði sagt í svargrein sinni að framgangur Klaustursþingmannanna gæfi alls ekki rétta mynd af störfum þingheims alls og ekki væri unnt að draga aðrar ályktanir en þær af Klaustursmálinu, en að áfengi gerði hvern mann að bjána sem þess neyti í óhófi.
Um þetta segir Kári:
„Ekki ætla ég að deila við bróður þinn um þá ályktun að áfengi neytt í óhófi geri menn að bjánum, en ég er honum hins vegar ósammála þegar hann segir að það megi ekki draga af því víðtækari ályktanir. Til dæmis er sá bjánaskapur sem fimmmenningarnir hafa framið í tengslum við Klausturmálið eftir að rann af þeim sínu verri en skítmælgin undir áhrifum. Þeir hafa veist að Báru þeirri sem tók upp samræðurnar og gefið í skyn að hún hafi verið útsendari illra afla og hafi jafnvel fengið fé fyrir vikið. Hvaða máli skiptir það? Þeir sögðu það sem þeir sögðu og hvort það var tekið upp eða af hverjum breytir þar engu. Það er sem sagt ýmislegt sem bendir til þess að þessir ágætu þingmenn séu töluverðir bjánar af sjálfum sér og þurfi ekki endilega hjálp áfengis til.“
Að lokum segir Kári frá því að langalangafi sinn og þeirra Thorsson bræðra, hafi verið ansi mikill glanni og ekki eins háttprúður og stilltur eins og Kári:
„Ég reikna með því að óhemjan í honum, sem ég held að hafi átt rætur í pirringi, hafi öll endað ykkar megin í fjölskyldunni.“