fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Þórdís Kolbrún um Procar-frétt RÚV: „Fyrirsögnin er óheppileg“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 26. apríl 2019 13:15

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra. Mynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, sagði í viðtali við RÚV í gær að það yrði mjög „íþyngjandi“ aðgerð fyrir bílaleiguna Procar, sem trekkti niður fjölda kílómetramæla í bílum sínum, að verða svipt starfsleyfi sínu.

Hafa margir tekið þetta óstinnt upp á samfélagsmiðlum og látið sem ráðherrann vildi hlífa bílaleigunni. Aðspurð hvort hún sjálf vildi svipta fyrirtækið starfsleyfi sagði Þórdís erfitt að svara spurningunni:

„Það er nú voðalega erfið spurning kannski fyrir mig að svara. Við erum með alls konar atriði í löggjöfinni sem kalla á dagsektir. Þetta er ekki þar inni. Inni í lögunum er talað um góða viðskiptahætti. Þetta eru að sjálfsögðu ekki góðir viðskiptahættir.“

Sagði Þórdís í fréttinni að verið væri að skoða hvaða heimildir væru fyrir hendi í málinu, bæði af hálfu Samgöngustofu og ferðamálaráðuneytisins:

„Vegna þess að öll íþyngjandi úrræði þurfa að hafa skýra lagastoð. En það er alveg rétt að þetta er auðvitað lögbrot.“

Rétt fyrirsögn, en óheppileg

Í dag skrifar Þórdís færslu á Facebook við frétt RÚV þar sem hún útskýrir afstöðu sína og segir að frétt RÚV hafi verið sett „óheppilega“ fram:

„Ræddi við RÚV í gær. Fyrirsögnin er óheppileg en hana þarf að lesa í samhengi við fréttina. Auðvitað er íþyngjandi fyrir hvert fyrirtæki að vera svipt starfsleyfi. Þannig er fyrirsögnin rétt og það sem ég var að benda á er að slík aðgerð þarf að hafa skýra lagaheimild. Íþyngjandi úrræði af hálfu hins opinbera þurfa alltaf lagastoð. Sem betur fer.

Viðbrögð við lögbrotum einstakra fyrirtækja, á hvaða sviði sem er, geta ekki og eiga ekki alltaf að vera „hvernig getum við aukið eftirlit hins opinbera gagnvart öllum á viðkomandi sviði til að koma í veg fyrir frekari lögbrot”. Við erum nú þegar með alltof viðamikið og dýrt eftirlit í íslensku atvinnulífi. Þetta hefur OECD þegar bent á í þeirra viðamiklu vinnu hér á landi, svokölluðu samkeppnismati sem ég setti af stað fyrir skömmu. Opinbert eftirlit þarf að vera skilvirkt, einfalt, skynsamlegt og þar með ekki of kostnaðarsamt.

Þess vegna er það mín skoðun að viðurlög þurfi að bíta þá sem meðvitað brjóta lög og beita vondum viðskiptavenjum og viðskiptaháttum. Að svara slíkum brotum ávallt með auknu eftirliti, í þessu tilviki eftirliti með 120 bílaleigum, sem kostar skattgreiðendur, fyrirtækin sjálf og þar með neytendur fjármuni er ég ekki viss um að sé svarið. Málið er alvarlegt líkt og fréttin ber með sér enda á borði lögreglu.

Þessu var ég að reyna að koma til skila í þessari stuttu frétt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt