fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Eyjan

Sakar „samviskulausan“ borgarstjóra um þjófræði í húsnæðismálum – Dagur svarar fullum hálsi

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 26. apríl 2019 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson, sósíalistaforingi, skrifaði í gær langorðan pistil á Facebook um það sem aflaga hefur farið í húsnæðismálum Reykjavíkurborgar á liðnum árum.

Sagði hann „þjófræði“, húsnæðisbólu og húsnæðiskreppu ríkja samtímis í höfuðborginni:

„Ef borgarstjórinn og borgarfulltrúar meirihlutans sofa á nóttinni í þessu ástandi er þetta samviskulaust fólk.“

Sagði Gunnar að íbúðir í miðbænum væru byggðar fyrir hina ríku, stefna sem hefði kolfallið og stefndi í „fangið á bönkunum“ og gjaldþrot verktaka.

Nefnir hann að aðeins 40% íbúða í Bríetartúni séu óseldar eftir rúmlega eitt ár í sölu og aðeins 20 prósent af þeim væru til almennings sem hygðist búa þar sjálft, restin í fasteignabrask eða leiguíbúðir fyrir ferðamenn.

Vill Gunnar Smári taka upp fyrra kerfi, frá því að Sjálfstæðisflokkurinn var við völd í borginni, sem er að úthluta lóðum endurgjaldslaust til almennings:

„Til að brjóta niður þjófræðið í húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar þarf að úthluta lóðum án endurgjalds til almennings, eins og gert var fyrir fáeinum áratugum. Það er nauðsynlegt til að stöðva lóðabraskið sem skilar ekki aðeins örfáum ógnargróða heldur leggur margfalt meiri byrðar á íbúðakaupendur og -leigjendur ævina á enda. Borgin þarf sjálf að stíga inn og stofna Byggingafélag Reykjavíkur og hefja skipulagða byggingu íbúða fyrir fólkið sem er í mestum húsnæðisvanda, helst að byggja þessar íbúðir á bestu útsýnislóðunum til að sýna fram á að sú tíð er liðin að hin ríku geti keypt sér almannagæði á borð við útsýnið út á Sundin.

Praktísk húsnæðisstefna

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri svarar Gunnari í athugasemdakerfinu hvar hann ver stefnu borgarinnar og bendir á Hverfisgötu sem gott dæmi um þá blöndun sem miðað hafi verið að:

„Þakka fyrir hlýjar kveðjur hér á þræðinum. Þessi uppbygging við Hverfisgötu er gott dæmi um Bland í borg – ólíkt því sem hér er ályktað af ýmsum. Borgin hefur undanfarin ár (frá 2014) sett sér samningsmarkmið á öllum nýjum uppbyggingarreitum til að tryggja slíka blöndun. Þar er annars vegar kveðið á um að Félagsbústaðir hafi kauprétt að 5% íbúða og að jafnframt sé ákveðið hlutfall almennar leiguíbúðir. Niðurstaðan á þessum reit varð að Félagsbústaðir keyptu 18% íbúðanna þannig að reiturinn verður óvenju vel blandaður.“

Fallið í gildru

Dagur segir að þeir sem gagnrýna stefnu borgaryfirvalda þurfi að kanna málið betur áður en haldið er fram á ritvöllinn með gífuryrðum:

„Ég geri ráð fyrir að Gunnar Smári, Finnur, Bogi og Guðmundarnir átti sig því að öll gífuryrðin hér að ofan eru óþörf eða dæmið og fréttin sem vísað er í einstaklega illa valið. Margir falla þessa dagana í svipaða gildru með gífuryrðum um að öll uppbyggingin í póstnúmeri 101 hljóti að vera aðeins fyrir þá sem hafa mest á milli handanna. Húsnæðisstefna borgarinnar hefur undanfarin ár unnið þar á móti, t.d. á þessum reit – og það er ekki síður gott að halda til haga að 400 af þeim íbúðum sem nú eru komnar upp úr jörðinni í póstnúmeri 101 (en ekki ennþá flutt inn í) eru stúdentaíbúðir. Stundum þarf bara að kanna málið – og ekki trúa öll sem sagt er. Húsnæðisstefnan í Reykjavík er nefnilega róttæk, félagsleg og praktískt. Og þessi uppbygging á Hverfisgötunni er gott dæmi um það.“

Týndur í skýjaborginni

Gunnar Smári svarar Degi að bragði að ekkert sé hæft í tali Dags um að hann hafi leyst þá húsnæðiskreppu sem hann hafi sjálfur staðið að:

„Þú ert búinn að fullyrða nú í níu ár að þú og félagar þínir í borginni hafið leyst húsnæðiskreppuna sem þið bjugguð til. Ekkert hefur verið hæft í þessu tali og skiptir þá engu hvernig þið hafið reynt að snúa upp á tölur og stillt þeim upp á hönnuðum glærusýningum. 12-15 þúsund fjölskyldur sem þið hafið skilið eftir í klónum á bröskurum og okrurum býr hins vegar enn í hinni raunverulegri Reykjavík, sem er afleiðing ömurlegs getu- og ábyrgðarleysi ykkar. Þið brahmítarnir í Ráðhúsinu lifið í einhverri allt annarri Reykjavík, borg sem þið teljið ykkur vera að búa til í legó-leik ykkar. Að þú skulir enn, eftir níu ár, halda sömu ræðuna um glæsilegar lausnir ykkar á húsnæðiskreppu fólks, talandi eins og hönnuður nýrrar borgar, maður sem er að gefa fólki nýja framtíð, á sama tíma og þú neitar að gangast við ábyrgð á húsnæðiskreppunni sem þú og félagar þínir bjuggu til og allri þeirri þjáningu sem húsnæðiseklan hefur steypt yfir saklaust fólk, hvernig þið vörpuðu saklausu fólki fyrir úlfanna, sömu úlfa og eru helstu samverkafólk ykkar í borgarskipulagi; þetta sýnir að þú er týndur, algjörlega horfinn inn í þessar skýjaborgir ykkar og verktakanna. Við sem búum í raunheimi getum í raun ekki átt í samtali við ykkur, við búum ekki í sömu borg, tölum ekki sama tungumálið, höfum of ólíkt verðleikamat og göngum út frá svo ólíkum hagsmunum.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“