Frumkvæðisathugun samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hefur leitt í ljós að framkvæmd fjárhagsáætlunar ársins 2016 var ekki í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga hjá a.m.k. þriðjungi sveitarfélaga landsins.
Þetta kemur fram á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Athugunin var gerð eftir samanburð ráðuneytisins á innsendum fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir árið 2016 og ársreikningum þeirra fyrir sama ár. Sá samanburður leiddi í ljós verulegt misræmi, bæði í rekstri og fjárfestingum, sem ekki varð séð að byggði á samþykktum viðaukum við fjármálaáætlun. Alls var óskað eftir upplýsingum frá 26 sveitarfélögum þar sem misræmi á fjárhagsáætlun og ársreikningum nam meira en 5% á árinu 2016.
Athugun ráðuneytisins leiddi í ljós að töluverður misbrestur var á því að leitað væri heimildar sveitarstjórnar fyrir auknum útgjöldum og fjárfestingum áður en til þeirra var stofnað. Hjá 19 sveitarfélögum voru gerðir viðaukar, en þeir náðu þó ýmist ekki yfir heildarfrávik frá fjárhagsáætlun eða höfðu verið gerðir eftir að vikið hafði verið frá áætluninni. Engir viðaukar höfðu verið gerðir í fimm sveitarfélögum þrátt fyrir að rekstrarkostnaður hafi farið fram úr heimildum fjárhagsáætlunar. Þá reyndist í einu tilviki aðeins um formgalla á framlögðum viðaukum að ræða og í öðru tilviki höfðu viðaukar verið afgreiddir með réttum hætti en uppsetning í ársreikningi var röng.
Tilgangur laga að tryggja festu í fjármálastjórn
Töluverðar breytingar voru gerðar á reglum um fjármál sveitarfélaga við gildistöku núgildandi sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Sneru þær ekki síst að fjárhagsáætlunum sveitarfélaga, en þær eru grundvöllur allra fjárhagslegra ráðstafana, bæði hvað varðar tekjustofna og útgjöld og hvort sem er vegna rekstrar eða fjárfestinga. Lögin kveða nú á með skýrum hætti að fjárhagsáætlun næstkomandi árs sé bindandi um allar fjárhagslegar ráðstafanir af hálfu sveitarfélagsins á því ári. Þá sé óheimilt að víkja frá fjárhagsáætlun nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina.
Tilgangur ákvæða sveitarstjórnarlaga er að stuðla að festu í fjármálastjórn sveitarfélaga og tryggja að ákvörðunarvald um fjárhagsleg málefni þeirra séu í höndum sveitarstjórnanna sjálfra. Þau stuðla að aga í ákvarðanatöku og betri yfirsýn yfir fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins á hverjum tíma. Þá er minnt á að grunnur góðrar fjármálastjórnunar er reglubundin yfirferð á fjármálum þar sem rauntölur eru bornar saman við fjárhagsáætlun.
Þeim sveitarfélögum sem tekin voru til skoðunar hefur þegar verið tilkynnt um niðurstöður athugunarinnar. Öðrum sveitarfélögum var einnig kynnt niðurstaðan og þau hvött til að gæta þess að fjármálastjórn væri ávallt í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga og reglugerðar um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 1212/2015. Athygli þeirra var jafnframt vakin á verklagsreglum um viðauka við fjárhagsáætlun, sem reikningsskila- og upplýsinganefnd sendi öllum sveitarfélögum í nóvember 2018.
Verklagsreglur gefnar út um viðauka við fjárhagsáætlun sveitarfélaga