Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, segir í grein í Viðskiptamogganum í dag að verði lífskjarasamningarnir að veruleika, geti það raskað uppbyggingu og forsendum að baki lífeyrissparnaði tugþúsunda Íslendinga og takmarkað valfrelsi .
Ástæðan er tillögur stjórnvalda um stuðning sinn við lífskjarasamningana, að sett verði í forgang að hækka lögbundið iðgjald í lífeyrissjóð úr 12 prósentum í 15.5 prósent af launum. Einnig, að minnst 12 prósent þurfi að renna í samtryggingasjóð og allt að 3.5 prósent í séreign.
Arnaldur segir fimm lífeyrissjóði í dag bjóða upp á að minna en 12% iðgjalds fari í samtryggingu og afgangurinn af 15.5 % iðgjaldi fari í séreign:
„Verði þessar breytingar að veruleika verður uppbyggingu og forsendum lífeyrissparnaðar tugþúsunda einstaklinga raskað og valfrelsi sjóðfélaga minnkað verulega. Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að ráðstafa hluta skylduiðgjalds í séreign og hluta í samtryggingu, sem veitir réttindi til ellilífeyris og áfallalífeyris, en þau réttindi erfast ekki. Kostir séreignar eru að hún erfist, hægt er að bjóða upp á mismunandi ávöxtunarleiðir og útgreiðslur eru mun sveigjanlegri en í samtryggingu.“
Arnaldur segir þessa leið stjórnvalda koma illa við lífskjör fólks, sem og minnka samkeppni á milli sjóða:
„Verði öllum starfandi einstaklingum gert skylt að greiða 12% af launum í samtryggingu er takmarkað verulega hve stórum hluta af skylduiðgjaldi einstaklingar geta ráðstafað í séreign. Einungis verður hægt að ráðstafa 3,5% af launum í séreign í stað rúmlega 12%. Samsetning lífeyrisréttinda yrði eins hjá flestum sjóðum; 12% af launum í samtryggingu og 3,5% í séreign. Valkostir við uppbyggingu lífeyrissparnaðar og sveigjanleiki við útgreiðslur á eftirlaunaárum myndu minnka verulega, sem gæti haft neikvæð áhrif á lífskjör fólks. Jafnframt má færa fyrir því rök að samkeppni milli sjóða minnki. Lífeyrisgreiðslur úr samtryggingu skerða lífeyri frá Tryggingastofnun en það sama gildir ekki um útgreiðslur úr séreign, hvort sem þær koma frá skyldusparnaði eða viðbótarsparnaði. Svo virðist sem ástæða fyrir fyrirhuguðum takmörkunum á greiðslum í séreign sé að tryggja að greiðslur úr lífeyrissjóðum vegna 12% iðgjalds skerði lífeyri frá Tryggingastofnun hjá öllum lífeyrisþegum.“
Arnaldur gagnrýnir einnig að fulltrúar opinberu lífeyrissjóðanna hafi ekki fengið sæti við borðið hjá stjórnvöldum þegar tillögurnar voru mótaðar:
„Það vekur furðu að einu aðilarnir sem sátu við borðið með stjórnvöldum þegar ákvörðun var tekin um forgangsröð breytinga á réttindauppbyggingu lífeyrissjóða voru aðilar á samningssviði SA og ASÍ sem eru í forsvari fyrir sjö lífeyrissjóði af 21 og standa undir minna en 50% af heildareignum lífeyrissjóðanna. Ekkert samráð var haft við fulltrúa opinberu lífeyrissjóðanna og frjálsu sjóðanna eða Landssamtök lífeyrissjóða sem eru heildarhagsmunasamtök allra lífeyrissjóða í landinu. Þegar ræddar eru grundvallarbreytingar á lífeyriskerfinu er afar mikilvægt að vandað sé til verka og er full ástæða til að fara í hvítbókarvinnu eins og gert var með fjármálakerfið. Tryggja þarf m.a. að einstaklingar fái nægan lífeyri til framfærslu og bjóðist fjölbreyttir valkostir við samsetningu lífeyrissparnaðar í samtryggingu og séreign. Jafnframt er löngu tímabært að endurskoða ósanngjarnar tekjutengingar lífeyris úr lífeyrissjóðum gagnvart lífeyri frá Tryggingastofnun. Vonandi bera stjórnvöld gæfu til að hafa ofangreint að leiðarljósi.“