Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, komst í dag í þriðja sæti yfir þá menn sem lengst hafa setið í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins frá upphafi. Þetta kemur í fram í samantekt Friðjóns R. Friðjónssonar, framkvæmdastjóra KOM og formanni upplýsinga- og fræðslunefndar Sjálfstæðisflokksins, í Facebook-hópnum Algerlega óáhugaverðar stjórnmálaupplýsingar.
Þess má geta að Bjarni mun ná Davíð Oddssyni í dagafjölda á formannsstóli þann 5. nóvember 2023, hljóti hann endurkjör á landsfundi.
Til þess að ná Ólafi Thors þarf Bjarni að sitja til ársins 2036, nánar tiltekið til 18. apríl.
Ólafur Thors sat lengst, eða frá 1934 til 1961, alls 9882 daga. Davíð Oddson sat frá 1991 til 2005, alls 5334 daga. Bjarni hefur verið formaður frá 2009, alls 3678 daga og tók fram úr Geir Hallgrímssyni, sem sat frá 1973 til 1983.
Næstur er Bjarni Benediktsson, frændi og alnafni núverandi formanns, sem sat frá 1961 til 1970, eða 3183 daga. Þá kemur Þorsteinn Pálsson frá 1983 til 1991, eða 2681 dagur í formannsstóli.
Jón Þorláksson sat í 1718 daga frá 1929 til 1934 og Geir H. Haarde sat frá 2005 til 2009, samtals 1260 daga.
Stysti formannstíminn var 1190 dagar, er Jóhann Hafstein sat milli 1970 og 1973.