Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og einn af stofnendum Viðreisnar, fer yfir hugmyndafræðina og átakalínurnar hjá þingflokkunum í pistli sínum á Hringbraut. Þar segir hann meðal annars að Miðflokkurinn eigi samleið með ríkisstjórnarflokkunum þegar kemur að peningakerfinu og Evrópusamstarfi:
„Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var í raun og veru mynduð fyrst og fremst til þess að standa vörð um þetta kerfi, sem er einn helsti áhrifavaldurinn um vaxandi ójöfnuð í eignaskiptingu. Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír tala hins vegar í þá veru að á þessu sviði þurfi kerfisbreytingu til að jafna aðstöðumun.
Varðandi samstarf við aðrar þjóðir vilja ríkisstjórnarflokkarnir þrír óbreytt ástand sem á rætur í þrjátíu ára gamalli heimsmynd. Nokkrir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna veifa popúlískri Brexithugmyndafræði og eru kannski að því leyti nær nútímanum.
Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír standa augljóslega fjær þjóðernispopúlisma og virðast opnari fyrir dýpra evrópsku samstarfi með þeim þjóðum sem næst okkur standa í menningarlegum efnum. Þeir horfa einfaldlega fram frá sjónarhorni nýrrar heimsmyndar meðan ríkisstjórnin horfir til baka.
Á báðum þessum sviðum á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hugmyndafræðilega samleið með Miðflokknum.“
Þorsteinn nefnir einnig stöðu ríkisstjórnarinnar og segir Miðflokkinn gegna lykilhlutverki við myndun nýrrar ríkisstjórnar:
„Stjórnarflokkarnir þrír standa tiltölulega sterkt að vígi þrátt fyrir nokkuð fall í skoðanakönnunum. Á hinn bóginn þurfa stjórnarandstöðuflokkarnir þrír rúmlega 10% fylgisaukningu til að ná meirihluta. Það er talsvert. Miðflokkurinn gæti síðan orðið leynivopn ríkisstjórnarinnar að kosningum loknum. Trúlega er líklegast að ríkisstjórnin stefni að því að halda áfram þannig breytt eftir næstu kosningar.
En fylgi stjórnarandstöðuflokkanna þriggja hefur aukist jafnt og þétt að undanförnu. Þegar nær dregur kosningum er því ekki með öllu útilokað að þeir gætu nálgast meirihluta. En þar með er ekki sagt að þeir geti myndað ríkisstjórn.
Þó að litið sé framhjá spurningunni um annan ríkisstjórnarkost fer ekki á milli mála að á Alþingi eru að skapast skarpari hugmyndafræðilegar átakalínur en verið hafa um nokkurn tíma. Þær línur liggja á milli framsýni og íhaldssjónarmiða þegar kemur að stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Og þær liggja líka á milli ólíkrar hugmyndafræði um jöfnuð og ójöfnuð á mörgum mikilvægustu verkefnasviðum stjórnmálanna. Þær félagslegu aðgerðir sem verkalýðsfélögin knúðu fram á dögunum breyta ekki þessari stöðu í grundvallar atriðum.“