Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, greinir frá því á Facebook í morgun að fundargerð borgarstjórnar frá 2. apríl hafi verið breytt eftir á og því sé um skjalafals að ræða. Segir hún að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist:
Vigdís segir:
„Eftirfarandi póst var ég að senda á forseta borgarstjórnar og forsætisnefnd:
„Á oddvitafundi sem var að ljúka var það viðurkennt að bætt var inn í fundargerð borgarstjórnar frá 2. apríl s.l. eftir að forseti borgarstórnar og fundarritarar höfðu samlesið fundargerðina og ritað nafn sitt undir að hún væri rétt.
Hér er um skýrt skjalafals að ræða sem líta verður mjög alvarlegum augum, og er það ekki í fyrsta sinn sem fundargerð er breytt eftir að forseti og fundarritarar kvitta undir með undirskrift sinni.
Ég óska eftir rafrænu afriti af fundargerðinni eins og hún var undirrituð af Dóru Björt Guðjónsdóttur, Vigdísi Hauksdóttur og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur.Þetta mál þarfnast ítarlegrar yfirferðar þar sem Reykjavíkurborg er stjórnvald og ber að fara að sveitarstjórnarlögum.“
Klausan sem bætt var inn í fundargerðina eftir að hún hafði verið undirrituð af fulltrúum minni- og meirihlutans, er eftirfarandi:
„Forseti vítir borgarfulltrúa Vigdísi Hauksdóttur vegna brigsla, sem hún ber forseta í ræðu sinni, með vísan til 2. mgr. 17. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.“
Vigdís sagði við Eyjuna að svipað mál hefði einnig komið upp í febrúar, þegar hún uppgötvaði að bókun hennar á borgarráðsfundi hefði ekki birst í rafrænni fundargerð Reykjavíkurborgar, heldur hafi önnur bókun birst undir dagskrárliðnum en rétt bókun hafi hinsvegar verið undir útprentaðri og undirskrifaðri fundargerð í fundarlok. Fjallaði bókunin um braggamálið. Vigdís lét skrifstofustjóra borgarstjórnar vita og var hún því lagfærð eftir á.
„Fjölmiðlar biðu eftir fundargerðinni og þarna var um mjög stóra villu að ræða því braggamálið var þarna í hámæli,“
sagði Vigdís við Eyjuna.
Bókunin var eftirfarandi:
„Fulltrúi fjármálaskrifstofu gat ekki gert grein fyrir þeim 73 milljónum sem greiddar hafa verið út á braggann án heimilda eins og borgarfulltrúi Miðflokksins hefur haldið á lofti. Úr skýrslu Innri endurskoðanda: Á árunum 2016-2018 samþykkti borgarstjórn þannig 202 m.kr. til Nauthólsvegar 100 á fjárhagsáætlun og borgarráð samþykkti 150 m.kr. til viðbótar 16. ágúst 2018 í viðauka við áætlun. Heildarúthlutað fjármagn til Nauthólsvegar 100 er því samtals 352 m.kr. en stórum hluta þess var úthlutað í viðaukum eftir að stofnað hafði verið til kostnaðarins (eftiráheimild). Raunkostnaður endurgerðarinnar var í byrjun desember 2018 um 425 m.kr. og því ljóst að enn hefur ekki verið óskað eftir fjármagni fyrir um það bil 73 m.kr. af heildarútgjöldunum. Borgarráð var blekkt 2017 og einnig 2018 varðandi stöðu verkefnisins. Staðfest var að fjármálaskrifstofan hefur ekki heimildir til að breyta fjárheimildum aftur í tímann og viðaukum við fjárhagsáætlun er lokað í desember ár hvert. Slíkt var staðfest af innanríkisráðuneytinu þegar óskað var eftir áliti um þetta efni 2013. Þegar ársreikningur er lagður fram þá staðfestir hann útgjöld og rekstur liðins árs og þar með er reikningsárinu lokað. Í ljósi þessa sér Borgarfulltrúi Miðflokksins sig knúinn að vísa þessu máli til sveitastjórnarráðuneytisins til frekari skoðunar og rannsóknar.“