fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024
Eyjan

30. mars fyrir 70 árum – inngangan í NATÓ og óeirðirnar á Austurvelli

Egill Helgason
Laugardaginn 30. mars 2019 20:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einhvern tíma hefði þetta verið rifjað upp með miklum þunga. En nú er það hálfgleymt. Það voru þó smá mótmæli á Alþingi í dag. Við erum jú ennþá í Atlantshafsbandalaginu. Í dag eru 70 ár liðin frá því Alþingi Íslendinga samþykkti að ganga í NATÓ.

Einu sinni skipti þetta þjóðinni í fylkingar. 30. mars 1949 var dagur sem lifði í vitund þjóðarinnar, átökin á Austurvelli, svikabrigslin, tortryggnin – mótmælin þar sem blandaðist  saman fólk sem var hollt hinu nýja lýðveldi, taldi óþolandi að hafa erlendan her í landi, og svo kommúnistar.

Lögreglan stóð vörð um þingið – og þar voru líka sveitir ungra Natósinna sem svo  tóku þátt í útrásinni úr þinghúsinu. Lögreglan beitti táragasi og kylfum. Lengi var deilt um hverjir gerðu hvað. Þjóðviljinn skrifaði um „vitstola hvítliða“, Mogginn og Alþýðublaðið um „óðan kommúnistaskríl“.

Þarna voru Clausenbræður öðru megin víglínunnar en Jón Múli Árnason hinum megin hennar. Móðir mín var þarna líka í hópi mótmælenda– hún kom af heimili þar sem fólk kaus Sjálfstæðisflokkinn, hún gerði sína uppreisn gegn því. En hún var aldrei kommúnisti, ekki fremur en margir aðrir sem þarna mótmæltu. Það var fremur blanda af þjóðerniskennd og friðarhugsjón.

Það hentaði hins vegar ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Alþýðuflokks, að láta líta út eins og þetta væru eintómir kommúnistar. Rúmlega tuttugu karlar voru ákærðir og fengu dóma fyrir framgöngu sína í mótmælunum, en dómarnir voru ýmist skilorðsbundnir eða þeim var ekki framfylgt. Á tíma vinstri stjórnarinnar sem sat 1957 var þeim svo veitt sakaruppgjöf.

 Í Wikipediafærslu um þessa atburði sé ég að stendur:

„Sagnfræðingurinn Þór Whitehead hefur meðal annars haldið því fram að beinlínis hafi verið stefnt að valdaráni sósíalista með þessum aðgerðum. Aðrir, meðal annars Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, hafa hafnað þessari túlkun.“

Myndirnar frá þessum degi sýna mjög hörð átök – ofbeldi. Það var lamið með kylfum og táragasi beitt óspart. Má sjá að átökin bárust út í nálægar götur. Svipaðir atburðir gerðust ekki á Austurvelli fyrr en í Búsáhaldabyltingunni svonefndri. En þá var varla sama harkan.

Þarna voru markalínur í pólitíkinni lengi – þess vegna þótti mörgum af eldri kynslóð tíðindum sæta þegar Sjálfstæðismenn féllust á að gera Katrínu Jakobsdóttur, úr hreyfingu sem á rætur sínar í gamla Sósíalistaflokknum, að forsætisráðherra. Þegar vinstri stjórnir komust til valda voru uppi heitstrengingar um að láta herinn fara og ganga úr Nató. Af því varð þó ekki. Og loks fóru að starfa stjórnir vinstra megin sem höfðu þetta ekki að stefnumiði – eða þá bara sem einhvers konar málfroðu.

Á vissan hátt var þetta skaðlegt. Við eyddum of miklum tíma og púðri í að rífast um herinn og NATÓ – stundum komst ekki annað að og fólk sem kannski hefði átt samleið í ýmsum málum gat ekki talað saman út af þessu.

En eins og segir, Nató starfar enn og við Íslendingar eru aðilar. Það er reyndar merkilegt að það voru ekki síst sósíaldemókratar sem tóku þátt í stofnun NATÓ. Hér á Íslandi var Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins, forsætisráðherra – og svo voru það kratarnir Clement Attlee í Bretlandi, Einar Gerhardsen í Noregi og Hans Hedtoft í Danmörku.

Þeim stóð mikill stuggur af Sovétkommúnismanum – þetta var á tíma Stalíns. Línurnar voru á sinn hátt skýrari. Nú veit maður ekki alveg til hvers NATÓ er í hinu stóra samhengi.

Sigfús Daðason orti:

„Um hjarta okkar þvert er hræelduð víglínan dregin/ en orrustan geisar í heitu höfði okkar.“

Þetta birtist í ljóðabókinni Höndum og orðum, var lesið pólitískt – nú finnst manni það bjóða upp á margvíslegri túlkanir.

Hér má sjá sveit aðallega ungra karlmanna sem hlýddu kalli um að koma og verja Alþingishúsið fyrir mótmælendum.

Hér sést hvar átökin eru að brjótast út. Búið er að brjóta rúður í þinghúsinu og lögreglan ræðst til atlögu.

Loks má svo sjá frétt  sem vinur minn og starfsfélagi Helgi H. Jónsson gerði fyrir meira en áratug, hún segir frá því þegar Kvikmyndasafn Íslands tók saman og sýndi myndefni sem var tekið upp á Austurvelli 30. mars 1949.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn