Ronen Manelis, talsmaður ísraelska hersins, sagði í morgun að nú væru tvær herdeildir á leið að landamærunum að Gasa en ein herdeild telur að jafnaði 3.500 til 5.000 hermenn.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra, var í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum hjá Donald Trump, forseta, þegar eldflauginni var skotið. Hann tilkynnti strax að hann snúi strax heim og sagði á hreinu að Ísrael muni „bregðast harkalega“ við árásinni.
Ronen Manelis sagði einnig í morgun að verið væri að kalla mörg þúsund hermenn úr varaliðinu til starfa, þar á meðal liðsmenn flughersins.
Ísraelsmenn voru algjörlega óviðbúnir eldflaugaárásinni í morgun. Venjulega hefði eldflaugavarnarkerfið Iron Dome skotið eldflaugina niður en herinn hefur staðfest að ekki var kveikt á kerfinu í morgun því ekki var búist við eldflaugaárás á miðhluta landsins. Venjulega er eldflaugum frá Gasa skotið á suðurhluta landsins.
Hvorki Hamas né önnur samtök á Gasa hafa lýst yfir ábyrgð á eldflaugaskotinu. Ísraelska dagblaðið Haaretz segir þó að heimildir innan Hamas hermi að æðstu menn samtakanna séu farnir í felur af ótta við yfirvofandi árásir Ísraels.