Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm sinn í lögbannsmálinu svokallaða, en Glitnir HoldCo fór fram á lögbann á umfjöllun Stundarinnar um gögn úr þrotabúi Glitnis. Hefur Hæstiréttur staðfest dóm Landsréttar um að lögbannið hafi verið ólögmætt og því er um fullnaðarsigur Stundarinnar og Reykjavík Media að ræða.
Í gögnunum voru meðal annars upplýsingar um viðskipti Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, fyrir hrun, en lögbannið var sett á rétt fyrir Alþingiskosningar, þann 13. október 2013.
Glitnir þarf að greiða málskostnað en Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar segir við Fréttablaðið, að það verði að koma í ljós hvort sú upphæð dugi fyrir málsvörninni:
„Það yrði súrt og ranglátt að sitja uppi með kostnað, verandi saklaus af öllum ásökunum.“
Af orðum Jóns Trausta virðist málinu þó ekki að fullu lokið af hálfu Stundarinnar:
„Nú er búið að draga okkur í gegn um réttarkerfið í 522 daga, ranglega í rauninni. Á bara að segja „úps og bless“? Á þessu bara að ljúka svona? Það sem við höfum viljað gera er að framkalla breytingar á þessu kerfi þannig að ekki sé hægt að beita ólögmætum valdbeitingum gegn fjölmiðlum aftur.“