Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu á dögunum sé „ný tegund óskapnaðar sem aðildarþjóðir hljóti að sameinast gegn í þeim tilgangi að verja fullveldi sitt.“
Arnar segir dóminn réttarafarslegt „gustukaverk“ og að með dómnum hafi MDE sýnt stjórnskipulegri valdtemprun hér á landi lítilsvirðingu,:
„…með því að gefa ekkert fyrir þá staðreynd að bæði Alþingi og Hæstiréttur Íslands, sem og raunar forseti lýðveldisins að undangenginni lögfræðilegri úttekt, höfðu áður fjallað um málið og að þessar meginstoðir lýðveldisins höfðu ekki látið tilgreinda annmarka leiða til þeirrar niðurstöðu sem meirihluti MDE kemst að, þ.e. að ástæða sé til að draga í efa að málsaðilar njóti réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómurum.“
Arnar telur dóminn vera umfram tilefni:
„Allir sem til þekkja mega vita að málsaðilar sem dæmdir voru af einhverjum þeirra fjögurra Landsréttardómara sem hér um ræðir höfðu ekki efnislega ástæðu til að efast um hæfni dómaranna og óhlutdrægni þeirra. Þegar meirihluti MDE kemst að þeirri niðurstöðu að skipun dómsins hafi brotið gegn mannréttindum dómþola tel ég blasa við að MDE er sjálfur kominn út í einhvers konar pólitík, sem ekki er endilega betri en sú pólitík sem iðkuð er af fólki sem þó hefur haft fyrir að bjóða sig fram í lýðræðislegum kosningum og hlotið lýðræðislegt umboð til að taka ákvarðanir sem varða mikla hagsmuni réttarríkisins Íslands. Minna ber á að dómurum er ætlað að veita öðrum valdþáttum aðhald en ekki að stýra för. Á þessum grunni er ég sammála þeirri ályktun minnihluta MDE að niðurstaða meirihlutans gangi of langt og sé„umfram tilefni“. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar Íslands um málið og nýgengnum dómi MDE hefðu dómsmálaráðherra og Alþingi mátt standa betur að meðferð málsins, en eins og minnihlutinn orðar það, þá eiga slík „siglingafræðileg mistök“ flugmannsins (dómsmálaráðherra/Alþingis) ekki að verða til þess að „flugvélin“ (íslenskt réttarkerfi) sé „skotin niður““.
Arnar segir dóminn hafa sett íslenskt réttarkerfi í algert uppnám og eftirskjálftarnir muni vara lengi. Í millitíðinni muni dæmdir menn krefjast þess að fá afplánun sinni frestað:
„Enn alvarlegri tel ég þó þá staðreynd að hér hefur erlendur dómstóll tekið fram fyrir hendurnar á lögmætum handhöfum íslensks ríkisvalds. Þeir síðarnefndu svara til ábyrgðar gagnvart íslenskum almenningi, en MDE ekki. Vilji menn láta þetta yfir sig ganga er eins gott að þeir séu meðvitaðir um fórnarkostnaðinn. Ef íslenska ríkið mótmælir ekki niðurstöðunni væri búið að leggja línu sem er á skjön við ákvæði stjórnarskrár um æðstu handhöfn ríkisvalds. Afleiðingar þess má nú þegar sjá í því uppnámi laga og friðar sem niðurstaða MDE hefur valdið. Hér er því um grundvallarmál að ræða fyrir lýðveldið Ísland, sem kallar á sérstaka athygli og snör viðbrögð.“
Arnar segir að MDE hafi fests sig í lagatæknilegum atriðum í stað þess að horfa til heildarmyndarinnar:
„Úrlausn MDE má jafna til þess að dómstóllinn ýti til hliðar stjórnskipunarhefðum sem hafa verið öldum saman í mótun. Með því má segja að MDE taki sér æðsta (og ótemprað) vald yfir lögum, stjórnmálum og lagaframkvæmd á Íslandi. Í því samhengi geta menn velt fyrir sér hvort MDE hefði komist að sömu niðurstöðu ef stærra ríki en Ísland hefði átt í hlut. Fái þessi niðurstaða að standa er verið að skera á böndin milli íslensks almennings og þeirra stofnana sem fara með æðsta ákvörðunarvald í málefnum þjóðarinnar. Dómur MDE endurspeglar vafalaust færni dómaranna í lögtækni, en getur verið að þarna hafi menn farið að hugsa of mikið um hið tæknilega á kostnað yfirsýnar, heildarsamhengis og þess sem kenna mætti við efnisleg mannréttindabrot? Ef svo er, þá hefur MDE misst sjónar á boltanum sem dómnum er ætlað að vakta. Miðað við opinberar málatölur um mál sem bíða meðferðar hjá MDE færi þá kannski betur á að dómstóllinn beindi kröftum sínum aftur að því að fást við mannréttindi, fremur en að framkvæma það sem Alexis de Tocqueville (1805-1859) lýsti sem nýrri tegund harðstjórnar, þ.e. „að smætta hverja þjóð niður í að vera ekki meira en hjörð ofurvarkárra og vinnusamra dýra, sem ríkisstjórnin gætir“. Það er illa fyrir lýðveldinu komið ef stjórnmálamenn og æðstu embættismenn lýðveldisins eiga að kasta frá sér hlutverki sínu gagnvart stjórnarskrá, stjórnskipunar- og lagahefðum í því skyni að ofurselja sig ólýðræðislegu valdi. Slíka valdbeitingu á að kalla sínu rétta nafni, jafnvel þótt hún skrýðist búningi mannréttinda.“