Landssamband veiðifélaga gerir alvarlegar athugasemdir við framlagt frumvarp að breytingum á fiskeldislögum. Sérstaklega þeirri fyrirætlan að setja á fót samráðsnefnd, sem fjalla á um áhættumat um erfðablöndun sem í eiga að sitja fulltrúi ráðherra og hagsmunaaðila fiskeldis í meirihluta.
Í tilkynningu segir:
„Með þessu háttalagi mun ráðherra grafa undan áhættumatinu enda er áhættumatið nú aðeins orðin tillaga Hafrannsóknarstofnunar í frumvarpi hans. Þá er það ákvæði að ráðherra eigi að staðfesta matið af sama toga. Þessar breytingar eru að mati Landssambandsins skýlaust brot á undirrituðu samkomulagi sem náðist um meðferð áhættumatsins í lögum sem samþykkt var í starfshópi um stefnumótun í fiskeldi. Landssambandið harmar að samkomulagið sé brotið á þennan hátt.“
Þá leggst Landssambandið einnig gegn þeirri fyrirætlan að veita Hafrannsóknarstofnun víðtækar heimildir til að stunda eldistilraunir í sjó:
„…þegar fyrir liggur að stjórnvöld hyggjast nýta þá heimild til að setja niður 3000 tonna eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúp þvert á niðurstöðu áhættumats og fram hjá öllum reglum í umhverfisrétti. Landssamband veiðifélaga hefur í ljósi þessarar stöðu boðað til formannafundar allra veiðifélaga í landinu þann 18. mars þar sem þessi staða verður rædd og viðbrögð við henni.“
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, skrifar um frumvarpið í Morgunblaðið í dag. Þar fjallar hann um þá „áskorun“ sem fengið hefur mesta athygli í umræðunni, sem er möguleg erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta laxastofna:
„Stefna stjórnvalda er að ákvarðanir um uppbyggingu fiskeldis verði byggðar á ráðgjöf vísindamanna. Af þeim sökum er í frumvarpinu kveðið á um að áhættumat erfðablöndunar verði lögfest og þannig tryggt að það verði lagt til grundvallar leyfilegu magni af frjóum eldislaxi í sjókvíum á hverjum tíma en matið segir til um hversu mikið magn laxa óhætt er að ala í sjókvíum á ákveðnu svæði þannig að ekki hljótist skaði af fyrir villta laxastofna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun geri bindandi tillögur að áhættumati erfðablöndunar en tillögurnar verði áður bornar undir samráðsnefnd um fiskeldi til faglegrar og fræðilegrar umfjöllunar. Nefndin getur þó ekki gert neinar breytingar á áhættumatinu. Ráðherra staðfestir í kjölfarið áhættumat erfðablöndunar samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunar og er sú tillaga bindandi fyrir ráðherra. Með því að lögfesta áhættumat erfðablöndunar eru stjórnvöld að takast á við þetta vandasama verkefni með vísindalegum aðferðum. Aðeins með þeim hætti mun skapast traustur grunnur til farsællar uppbyggingar laxeldis í fullri sátt við umhverfið.“
Kristján Þór segir verndun náttúrunnar og fiskeldi vel geta farið saman:
„Umræðan hér heima er stundum með þeim hætti að maður upplifir eins og það þurfi að velja á milli tveggja sjónarmiða – hvort viltu byggja upp fiskeldi eða vernda náttúruna? Í mínum huga er þetta röng nálgun. Þessi grundvallaratriði bæði geta og eiga að fara vel saman enda er eldi á laxfiskum talið vera umhverfisvæn og sjálfbær matvælaframleiðsla. Því tel ég okkur Íslendinga geta gert mun betur í að láta þessa lykilþætti vinna saman. Með það að markmiði er í frumvarpinu sett á fót samráðsnefnd sem er stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis. Markmið þessa er að styrkja vísindalegan grundvöll áhættumats erfðablöndunar og stuðla að nauðsynlegu samráði við uppbyggingu fiskeldis. Hlutverk samráðsnefndarinnar verður m.a. að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á. Mikilvægt er að allir helstu aðilar hafi sameiginlegan vettvang til skoðanaskipta um þetta mikilvæga tæki sem áhættumatið er en einnig um aðra þætti sem snerta málefni fiskeldis. Í nefndinni munu eiga sæti fimm fulltrúar og skipar ráðherra formann nefndarinnar. Þá tilnefna Hafrannsóknastofnun, fiskeldisstöðvar, Landssamband veiðifélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga fulltrúa í nefndina.“