Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ráðherra ferða,-iðnaðar og nýsköpunarmála, hefur brugðist við skrifum Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi ráðherra VG, sem sagði að sitthvað héngi á spýtunni í kaupum ríkisins á Landsneti, sem er í meirihlutaeigu Landsvirkjunar. Telur Ögmundur að um undanfara einkavæðingar Landsvirkjunar að ræða og vísar til þess sem Þórdís lét hafa eftir sér á síðum Morgunblaðsins:
„Í fyrsta lagi segir hún að ríkisstjórnin hafi samþykkt að skattgreiðendur kaupi Landsnet af eigendum Landsnets sem að uppistöðu eru skattgreiðendur sjálfir. Hér er því um það að ræða að taka peninga úr einum vasa okkar til að setja annan. Hér hangir sitthvað á spýtunni sem snýr að einkavæðingu raforkugeirans. En svo það fari ekki á milli mála þá á Landsnet að sjálfsögðu að vera í eigu almennings framvegis sem hingað til. Það eiga orkuverin að vera einnig og að sjálfsögðu orkuauðlindirnar. Aldeilis ekki hefur mbl.is eftir ráðherranum: “Þórdís Kolbrún sagðist hafa heyrt af því að hópur fólks sem ætlaði að berjast gegn samþykkt þriðja orkupakkans á Alþingi ætlaði að fara fram undir slagorðinu „Okkar orka“ og sagðist hún túlka þau skilaboð sem svo að þessi hópur teldi orkuauðlindina af sama meiði og fiskinn í sjónum, þ.e. í sameign þjóðarinnar. Svo er ekki, sagði ráðherra, og lagði áherslu á að vatnsafl og jarðvarmi og nýtingarréttur af þeirri auðlind væri í hendi landeigenda.”
Ögmundur sagði einnig að í gang væri kominn „einkavæðingarkapall“ orkugeirans:
„Því miður held ég að í gang sé kominn einkavæðingarkapall orkugeirans og að kaup almennings á Landsneti frá sjálfum sér sé hluti af þessum kapli. Slíkur einkavæðingarkapall byrjar alltaf á að markaðsvæða allar einingar þeirrar starfsemi sem á að selja, skilgreina og aðgreina einstaka hluta hennar og gera þá þannig söluhæfa. Þegar það hefur verið gert ríður höggið og almenningur er sviptur eignum sínum. Til að hægt sé að selja Landsvirkjun þarf því fyrst að aðgreina Landsnet þar frá.“
Þórdís segir að ekki sé um neina stefnubreytingu sé að ræða og fullyrðir að ekki sé á dagskrá að einkavæða Landsvirkjun:
„Látum þá neita því“ er auðvitað elsta trixið í bókinni.Ég sé að Ögmundur Jónasson dregur miklar ályktanir af ræðu minni á ársfundi Landsvirkjunar. Einkavæðing Landsvirkjunar er ekki á dagskrá, svo það sé sagt. Orkuauðlindin er síðan þjóðareign (eða strangt til tekið ríkiseign, þegar ríkið á auðlind og eignarrétt að þeim) að því marki sem hún er á landi í eigu ríkisins, og hún er það að mestu og engin breyting boðuð á því. Hún er eign sveitarfélaga að því marki sem hún er á landi í eigu sveitarfélaga. Og hún er einkaeign að því marki sem hún er á landi í einkaeigu. Þetta eru alls engin ný tíðindi eða stefnubreyting á nokkurn hátt.“
Þórdís Kolbrún segir smávirkjanir fela í sér umtalsverð tækifæri fyrir bændur:
„Viljum við taka þau tækifæri af bændum og ríkisvæða þessa auðlind? Mögulega vilja Ögmundur Jónasson og aðrir einbeittir vinstrimenn gera það. Eigum við að láta þá neita því?“