Í október 2018 dæmdi Hæstiréttur ríkið til að greiða fimm ljósmæðrum vangoldin laun fyrir vinnu sem þær unnu meðan verkfall 18 aðildarfélaga BHM stóð yfir árið 2015. Rétturinn taldi að sú ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins að halda eftir stórum hluta af launum þeirra hefði ekki staðist ákvæði laga og kjarasamninga. Dómurinn er fordæmisgefandi fyrir aðra félagsmenn Ljósmæðrafélags Íslands sem og félagsmenn annarra aðildarfélaga BHM sem unnu í verkfallinu og sættu sambærilegum skerðingum á launum sínum.
Nú eru tæplega fimm mánuðir liðnir frá dómi Hæstaréttar og enn hafa félagsmenn aðildarfélaga BHM ekki fengið laun sín greidd, ef frá eru taldar þær fimm ljósmæður sem dómsmál var höfðað fyrir. Um er að ræða samtals rúmlega 300 félagsmenn Ljósmæðrafélags Íslands, Félags lífeindafræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga og Félags sjúkraþjálfara.
BHM krefst þess í yfirlýsingu að skuldin verði greidd án tafar og skora á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra:
„BHM lýsir yfir miklum vonbrigðum með að stjórnvöld hafi enn ekki brugðist við niðurstöðu æðsta dómstóls landsins og gert upp skuld ríkisins við félagsmenn aðildarfélaga bandalagsins, eins og þeim ber skilyrðislaust að gera. BHM skorar á fjármála- og efnahagsráðherra að sjá til þess að skuldin verði greidd án tafar og að félagsmenn fái vangoldin laun sín frá árinu 2015 greidd með verðbótum og dráttarvöxtum.“
Í byrjun apríl 2015 efndu 18 stéttarfélög innan Bandalags háskólamanna (BHM) til verkfallsaðgerða, þeirra á meðal Ljósmæðrafélag Íslands (LMFÍ). Félagið boðaði til ótímabundins verkfalls meðal félagsmanna sinna sem störfuðu á Landspítalanum. Verkfallið hófst 7. apríl og var ætlað að standa í lotum alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga þar til samningar næðust. Margar ljósmæður náðu að skila nánast fullri vinnuskyldu þrátt fyrir verkfallsaðgerðirnar. Engu að síður ákvað ríkið að halda eftir stórum hluta af launum þeirra. Við útreikning á launum ljósmæðra í verkfallinu var horft til mánaðarlegrar vinnuskyldu þeirra og laun sem samsvöruðu verkfallsdögunum dregin frá með tiltekinni aðferð. Þannig var ekki tekið tillit til raunverulegs vinnuframlags.Af þessum sökum höfðaði BHM mál gegn ríkinu fyrir hönd fimm ljósmæðra haustið 2015. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp 30. maí 2017 og var niðurstaðan sú að aðferð ríkisins við að reikna út laun ljósmæðranna hefði hvorki staðist ákvæði kjarasamnings né meginreglur vinnuréttar. Ríkinu hafi borið að reikna þeim laun út frá því hversu hátt hlutfall vinnuskyldu sinnar þær inntu af hendi á verkfallstímanum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið áfrýjaði þessum dómi til Hæstaréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms í október 2018.