Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, greindi frá því á Facebook í gærkvöldi, að honum hafi verið hótað lögsókn vegna ummæla sem hann hefur látið falla um starfsmannaleiguna Menn í vinnu í fjölmiðlum. Krefst starfsmannaleigan afsökunarbeiðni og greiðslu einnar milljónar í skaðabætur vilji Viðar komast hjá lögsókn. Þarf afsökunarbeiðnin að birtast á heimasíðu Eflingar, og þá þurfi hann að birta grein á Vísi og Stöð 2 og til vara annarsstaðar.
Samkvæmt heimildum Eyjunnar sendi starfsmannaleigan frá sér sex hótunarbréf í gær og mun senda frá sér þrjú slík bréf í dag að auki, á aðila sem hafa fjallað um málið í fjölmiðlum.
Viðar segir í samtali við Fréttablaðið að hann hyggist ekki ætla að verða við beiðninni:
„Ég hef nú ekki í hyggju að bregðast við þessu.“
Efling hefur fordæmt vinnubrögð starfsmannaleigunnar mikið og segjast hafa gögn sem sýni að brotið sé á rétti starfsfólks, sem séu erlendir verkamenn:
„Tugir starfsmanna frá Rúmeníu hírast í herbergjum, allt að tíu saman, en borga þó fimmtíu þúsund krónur á mánuði fyrir. Í ráðningarsamningi frá fyrirtækinu sem Efling-stéttarfélag hefur undir höndum er klausa sem segir að undirritaður skuldi leigu sem Menn í vinnu megi draga frá launum, án þess að upphæð eða nokkurs konar leiguvernd sé tiltekin.“
„Í kvöld var dyrabjöllunni hringt heima hjá mér og mér fært stórt pappírsumslag með nafninu mínu handskrifuðu á. Glaðningurinn reyndist svo vera hótun um lögsókn frá starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu. Þar eru talin upp ýmis ummæli sem ég hef látið falla í fjölmiðlum um starfsemi fyrirtækisins. Ég er krafinn um afsökunarbeiðni og 1.000.000 í skaðabætur.“